Innlent

Segir gagnrýni forsetans koma of seint

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Þorvaldur Gylfason, prófessor í hagfræði og fulltrúi í stjórnlagaráði.
Þorvaldur Gylfason, prófessor í hagfræði og fulltrúi í stjórnlagaráði.
Gagnrýni forsetans á frumvarp um nýja stjórnarskrá kemur of seint fram að mati Þorvalds Gylfason sem sat í stjórnlagaráði. Hann segir rangt að nýja stjórnarskráin auki völd forsetans.

Forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa lagt mikla áherslu á að afgreiðslu frumvarps um nýja stjórnarskrá ljúki á kjörtímabilinu. Síðast í gær sagði forsætisráðherra þetta mikilvægasta málið sem þyrfti að klára. Ekki náðist í hana í dag vegna málsins. Þorvaldur Gylfason sem sat í stjórnlagaráði segir gagnrýni forsetans á frumvarpið koma of seint fram.

„Því hún hefði þurft að koma fram þegar þegar að stjórnalagaráð sat að störfum eða þegar að Alþingi var að fara yfir frumvarpið og Alþingi tók sér 9 mánuði til þess áður áður en það beindi spurningum til stjórnlagaráðs," segir Þorvaldur.

Hann segir vilja þjóðarinnar skýran enda hafi málið fengið eins lýðræðislega meðferð eins og hugsast gat frá árinu 2009. Hann er ekki sammála þeirri túlkun forsetans að ný stjórnarskrá auki völd hans.

Í frumvarpinu séu gerðar tvær höfuðbreytingar á hlutverki forseta Íslands. Annars vegar þurfi hann að deila málskotsréttinum með þjóðinni sem dragi úr áhrifavaldi hans og hins vegar fái hann eftirlitshlutverk með skipan embættismanna sem auki áhrif hans innan stjórnkerfisins.

„Ég lít svo á að á heildina litið þá sé staða forsetans svipuð því sem hún hefur verið allan lýðveldistímann," segir hann. Þorvaldur segir Alþingi nú hafa ákveðið að efnislegri umræðu sé lokið og aðeins eftir breytingar á orðalagi.

„Þá er bara orðið of seint að ætla að rífa lestina af teinunum. Lestin er komin á teinana og endir málsins er í augsýn og þá byrja menn ekki að þrefa um efnisatriði sem þeir hefðu átt að vera löngu búnir að vekja máls á ef þeim væri einhver alvara með því," segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×