Innlent

Segir hættulegt fordæmi að greiða fyrir fjölmiðlaráðgjöf

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Innanríkisráðuneytið greiddi markaðsstofunni Argus ehf. tæpar 2,4 milljónir króna fyrir sértæka fjölmiðlaráðgjöf vegna lekamálsins á síðasta ári. Kjarninn greindi fyrst frá málinu en útseldur klukkutími fyrir fjölmiðlaráðgjöf kostar að jafnaði 18.000 krónur.

Fyrrverandi ráðherrar sem fréttastofa ræddi við í dag segja engin fordæmi fyrir því að slíkur persónulegur kostnaður ráðherra sé greiddur af ráðuneyti. Því þarfnist skýringa frá fyrrverandi innanríkisráðherra.

„Þetta vekur upp spurningar hvort þörf er fyrir að fá áróðursmeistara til þess að koma ráðherra út úr klemmu þegar hún hefur ekki sagt þjóðinni sinni satt,“ segir Bjarkey Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna.

Bjarkey bar málið upp á fundi fjárlaganefndar í dag og ætlar í kjölfarið að fara fram á ítarlegri skýringar frá innanríkisráðuneytinu en hún segir málið gefa hættulegt fordæmi.

En kemur til greina að krefja fyrrverandi innanríkisráðherra um endurgreiðslu á þessum fjármunum?

„Ef að það kemur í ljós að þetta er fyrst og fremst persónuleg aðstoð þá finnst mér það auðvitað alveg umhugsunarinnar virði að velta því fyrir sér, vegna fordæma, hvort að það sé eðlilegt að krefjast þess.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×