Innlent

Segir málaferlin og aðildarumsóknina vera aðskilin mál

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Magnús Orri Schram er þingflokksformaður Samfylkingarinnar.
Magnús Orri Schram er þingflokksformaður Samfylkingarinnar.
Magnús Orri Schram, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, segir að aðildarumsóknin að Evrópusambandinu og málaferlin fyrir EFTA dómstólnum séu tvö aðskild mál sem ekki eigi að blanda saman. Stjórnarandstæðingar fullyrtu í gær að aðildarviðræðum við Evrópusambandið væri nánast sjálfhætt eftir að RÚV greindi frá því að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefði óskað eftir aðild að málaferlunum gegn Íslandi í Icesave málinu.

„Ég lít svo á að Icesave málið sé hluti af einhverskonar uppgjöri við fortíðina. Þar sé verið að takast á um það hvort reglur um innri markaðinn hafi verið brotin. EES samningurinn er samstarf sem við höfum verið í síðan ´93 og skiptir gríðarlegu máli fyrir íslenskt efnahagslíf. Ekki ætlum við að fara að efast um EES samninginn heldur hitt, menn eru að takast á um það hvort reglur hafi verið brotnar. Mér sýnist nú þeir þingmenn láta hvað hæst í dag sem höfðu ekki miklar áhyggjur af þessu dómstólaferli þannig að þeir ættu nú alveg að geta sofið rólega," segir Magnús Orri.

Hann segir að umsókn um aðild að Evrópusambandinu snúist aftur á móti um framtíðina. „Hún snýst um það hvort við ætlum að byggja upp þjóðfélag án verðtryggðar krónu. Hún snýst um það hvort við ætlum að búa hér til samkeppnishæft atvinnulíf, hvort við ætlum að geta haldið okkar öflugustu fyrirtækjum hér innanlands, hvort við getum losað gjaldeyrishöft, hvort við ætlum að halda áfram að borga 500 krónur fyrir lattebollann á Strikinu. Það er hluti af framtíðinni," segir Magnús Orri. Því sé best að klára uppgjörsmálin við fortíðina og láta þau fara í sinn farveg fyrir dómstólum erlendis. Aðildarumsóknin haldi svo líka áfram því hún sé hluti af lausninni sem þjóðin geti svo tekið afstöðu til í þjóðaratkvæðagreiðslu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×