Viðskipti innlent

Segir skattgreiðendur borga brúsann

Höskuldur Ólafsson segir að skattgreiðendur muni á endanum borga brúsann af endurgreiðslu vaxta.
Höskuldur Ólafsson segir að skattgreiðendur muni á endanum borga brúsann af endurgreiðslu vaxta.
Höskuldur Ólafsson, forstjóri Arion banka, segir að bankinn muni skoða þær hugmyndir sem Landsbanki Íslands kynnti fyrir viðskiptavinum sínum í gær. Í hugmyndunum felst meðal annars 20% vaxtaafsláttur fyrir lánþega bankans.

„Vissulega munum við skoða þetta og meta næstu skref. Hingað til höfum við unnið eftir samkomulagi milli ríkis, lánastofnanna og lífeyrissjóða sem kynnt var í desember. Þeirri vinnu hefur miðað ágætlega hjá bankanum og því starfi munum við halda áfram. Hluti af þeim úrræðum sem Landsbanki Íslands hefur nú kynnt er sambærilegur lausnum sem Arion banki hefur boðið viðskiptavinum sínum í tæp tvö ár og reynst hafa vel,“ segir Höskuldur.

Hugsi yfir vaxtaafslættinum

Hann segir að endurgreiðsla vaxta virðist hins vegar vera ný almenn aðgerð. Það sé alveg ljóst að slík aðgerð sé gríðarlega kostnaðarsöm og það séu eigendur Landsbankans, skattgreiðendur, sem á endanum muni bera kostnaðinn af þessari aðgerð, sem nýtist um 30 þúsund af viðskiptavinum Landsbankans.

„Við erum hugsi yfir þessu og höfum skilning á óskum okkar viðskiptavina um að þeim standi þetta einnig til boða. Því er ekki að neita að þetta setur ákveðna pressu á önnur fjármálafyrirtæki sem og lífeyrissjóði landsins. Við bíðum einnig eftir viðbrögðum Íbúðalánasjóðs sem eins og Landsbankinn er í eigu ríkisins,“ segir Höskuldur.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×