Innlent

Segir þjóðfélagið ekki undirbúið fyrir olíuvinnslu

Umhverfisráðuneytið segir að því fari fjarri að stjórnsýslan og þjóðfélagið séu vel undirbúin fyrir mögulega olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra segir að ákveða þurfi hvaða kröfur verði gerðar áður en menn ljái máls á olíuvinnslu.

Áformað er að fyrstu sérleyfin vegna Drekasvæðisins verði gefin út í janúar og þau munu ekki aðeins gilda um olíuleit heldur veita einnig rétt til olíuvinnslu. Sem atvinnuvegaráðherra er Steingrímur ráðherra olíumála og þegar hann var spurður hvort honum hugnaðist að Ísland yrði olíuvinnsluríki var svarið í fréttum Stöðvar 2:

„Ég held að við förum nú ekkert fram úr okkur. En ég held að það sé ljóst að þetta mál er kannski komið á nýtt stig núna og þetta eru, ef ég má orða það svo, meiri alvöruleyfi. Þetta er svona meiri þungi í þessu. Nú fer þessi leitar- og rannsóknarþáttur væntanlega af stað, af meiri krafti og með alvöruaðilum."

Steingrímur sagði að þar af leiðandi þyrfti að nota tímann vel til undirbúnings og vísaði til athugasemda umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, sem taka yrði mjög alvarlega. Í þeirri umsögn segir ráðuneytið að rannsóknarboranir geti haft veruleg umhverfisáhrif og að því fari fjarri að stjórnsýslan og þjóðfélagið sé vel undirbúið fyrir mögulega olíuvinnslu á svæðinu.

Steingrímur segir að nú verði að setja niður þær kröfur sem uppfylla verði „..til þess að við yfirhöfuð ljáum máls á því að einhver slík vinnsla fari af stað". Algjörlega verði að vera hafið yfir vafa að ekki sé tekin áhætta fyrir umhverfi, fiskstofna né að hætta verði á mengunarslysum.



Tengdar fréttir

Leyfisveiting á Drekasvæðinu vekur athygli olíuheimsins

Tilkynning íslenskra stjórnvalda um veitingu sérleyfa til olíuvinnslu á Drekasvæðinu hefur vakið athygli fjölmiðla í Bretlandi og helstu vefmiðla í olíugeiranum. Netmiðill breska útvarpsins, BBC, og skoski miðillinn The Scotsman, eru meðal þeirra sem birt hafa frétt um málið, en einnig viðskipta- og olíufréttamiðlar eins og World-Oil, Natural Gas Europe og Offshore Magazine.

Færeyingar gætu orðið fimmfalt ríkari en Norðmenn

Statoil-menn segjast ætla að halda áfram olíuborun við Færeyjar næsta vor. Þetta kemur fram í fréttaskýringu á norska olíuvefmiðlinum Offshore.no þar sem bent er á að olíufundur myndi umbylta færeysku samfélagi. Jafnframt kemur fram hversvegna leitin í Færeyjum geti haft áhrif á olíuleit við Ísland. Statoil og samstarfsaðilar þess, Exxon Mobil og Atlantic Petroleum, greindu frá því í morgun að hlé hafi verið gert á borunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×