Innlent

Segir Varnarmálastofnun lagða niður í verðlaunaskyni fyrir ESB

Valur Grettisson skrifar
Varnarmálastofnun
Varnarmálastofnun

Í skjölum Wikileaks, sem voru birt í Fréttablaðinu í dag, kemur fram að sendiherra Bandaríkjanna hér á landi, Carol Van Voorst, fullyrðir að Ellisif Tinna Víðisdóttir, sem var forstjóri Varnarmálastofnunnar, hafi sagt í samtali við sendiráðið að hún teldi að stofnunin væri lögð niður til þess að verðlauna Vinstri græna vegna stuðnings við ESB umsóknina.

Um er að ræða póst sem er tímasettur í desember 2009.

Haft er eftir Ellisif Tinnu að hún efist um að stofnunin yrði leyst upp á ábyrgan hátt þar sem hún telji að ákvörðunin sé einungis tekin til þess að sefa VG. Hún segir ákvörðunina verðlaun fyrir stuðning við ESB aðild og önnur umdeild mál í samstarfi við Samfylkinguna.

Þá segir sendiherra um VG í póstunum að árið 2008 hafi „dyggu þjóðernissinnarnir" í VG verið farnir að endurmeta Evrópustefnu sína til að halda í við stuðning unga fólksins.

Katrín Jakobsdóttir varaformaður á þá að hafa sagt sendiráðinu vorið 2008 að margir flokksmenn væru að komast á þá skoðun að ESB-aðild væri eini raunhæfi kosturinn og að VG myndi líklega endurmeta ESB-stefnuna. Hún hefði skilning á því.

Árið 2009 segir sendiherrann að VG verði líklega „neytt til Brussel" af Samfylkingunni. Löngun flokksins til að stofna fyrstu vinstri stjórnina í meirihluta þýði að VG sé undir mikilli pressu að láta undan Samfylkingu. Innanbúðarmenn í VG hafi viðurkennt að utanríkisstefna flokksins „risti ekki djúpt".

Í ljósi þessa og í ljósi útkomu kosninganna þar sem evrópusinnuðu flokkarnir fengu meirihluta (Samfylking, Borgarahreyfing og Framsókn) kemur það sendiráðinu á óvart að þingmenn stjórnarmeirihlutans gangi óbundnir til kosninga um aðildarumsókn á Alþingi.

Sendiherra telur VG hafa glatað trúverðugleika vegna málsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×