Innlent

Segja frumvarp um hjúskaparlög andkristið

Umsagnaraðilar nýs frumvarps um hjúskaparlög óttast sumir að það muni leiða bölvun yfir land og þjóð og segja frumvarpið andkristið. Þá brjóti það gegn eðli hjónabandsins sem stofnunar.

Frumvarp dómsmála- og mannréttindaráðherra um ein hjúskaparlög er nú til umsagnar hjá allsherjarnefnd. Um er að ræða breytingar á eldri hjúskaparlögum sem lögleiða hjúskap samkynhneigðra. Nefndinni hafa borist fjölmargar umsagnir um frumvarpið, langflestar jákvæðar.

Umboðsmaður barna, Félag siðrænna húmanista á Íslandi, Mannréttindastofa, kvenréttindafélag og Jafnréttisstofa eru meðal þeirra sem fagna frumvarpinu.

En ekki eru allir sáttir. Kirkja sjöunda dags aðventista segir frumvarpið ganga í berhögg við fyrirmæli Biblíunnar.

Safnaðarhirðar Hvítasunnukirkjunnar segja það sorglegt og andkristið að telja það til mannréttinda að tveir karlar og tvær konur geti gegnt sama hlutverki og hjón.

Finnbogi Ástvaldsson Guðsmaður segist hafa fengið boð að ofan um að senda inn erindi. Hann segir: „Mér kemur við hvort sett séu lög á Íslandi sem geta valdið bölvunum yfir landi og þjóð."

María Ágústsdóttir, prestur, telur það algjörlega óviðunandi að í stað orðanna karls og konu í 1. grein laganna komi orðalagið tveggja einstaklinga. Þá segir hún: „..finnst mér brotið á eðli hjónabandsins sem stofnunar sem sett er til viðgangs mannkyni, rammi utan um getnað og uppeldi barna. Um það eru einstaklingar ekki færir.."

Og í erindi sínu til nefndarinnar segir Steinunn Jóhannesdóttir, rithöfundur: „Ég vil ekki láta lítilsvirða lífshlutverk mitt í lögum sem banna að ég sé kölluð kona"





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×