Erlent

Segja Kim Davis enn brjóta lög

Samúel Karl Ólason skrifar
Kim Davis í erjum við tvo samkynhneigða menn.
Kim Davis í erjum við tvo samkynhneigða menn. Vísir/AFP
Kim Davis, sýsluritari Rowan sýslu í Kentucky í Bandaríkjunum, er sögð brjóta lög með því að breyta giftingarleyfum til samkynja para. Hún hafði verið fangelsuð í fimm daga fyrir að hafa neitað að veita giftingarleyfi en var sleppt með því skilyrði að hún myndi ekki skipta sér af veitingu leyfanna.

Hins vegar gerði hún breytingar á leyfunum eftir að hún sneri aftur til vinnu á þann veg að nafn hennar og Rowan sýslu kæmi ekki fram á þeim. Lögmenn para sem hafa höfðað mál gegn henni segja það vera ólöglegt og brot á tilskipun dómarans þegar henni var sleppt úr haldi.

Lögmennirnir hafa farið fram á að skrifstofa verði sektuð og leyfunum breytt til fyrra horfs. Þeir segja þessa breytingu hafa valdið lagalegri óvissu varðandi hjónabönd skjólstæðinga sinna.

Samkvæmt Reuters fréttaveitunni segir lögmaður Davis hins vegar að sú krafa sýni fram á að lögmennirnir og pörin vilji ekki eingöngu fá giftingarleyfin. Þau „vilji höfuðleður hennar til að hengja upp á vegg“.

Telur leyfin ekki gild í augum guðs

Sjálf hefur Davis gefið út að hún telji leyfin vera ólögleg. Í viðtali við Good Morning America í morgun sagði hún einnig að leyfin væru „ekki gild í augum guðs“.

Hún var margsinnis að tárum komin og sagðist hafa fengið haturspóst. Í þeim hefði hún verið kölluð Hitler og hommahatari. Hún segist ekki vera hræsnari, þrátt fyrir að hún hafi gift sig fjórum sinnum.

Hún sagði einnig að hún hefði ekki ávallt verið góð manneskja en að henni hefði verið fyrirgefið, að vald guðs bæri yfir annarskonar vald og að hún myndi ekki segja af sér.

„Ég er góð í mínu starfi. Ég á vini sem eru hommar og lesbíur. Þau vita hvar ég stend og við erum ekki sammála um þetta mál. Það er í lagi þar sem við berum virðingu fyrir hvoru öðru.“

Enn hefur ekki reynt á lögmæti breyttu leyfanna fyrir dómstólum. Ríkisstjóri Kentucky hefur gefið út að ríkið muni líta á leyfin sem gild.


Tengdar fréttir

Ætlar ekki að gefa sig

Kim Davis, sem situr nú í fangelsi, eftir að hafa neitað að veita samkynja pörum giftingarleyfi, segir samvisku sína vera hreina.

Segir veitt giftingarleyfi vera ólögleg

Sýrsluritarinn Kim Davis segist ekki ætla að koma í veg fyrir veitingu giftingarleyfa fyrir samkynja pör í umdæmi sínu, enda séu þó ógild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×