Innlent

Segja skattheimtuna arfavitlausa og ala á mismunun

Erna Hauksdóttir er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Erna Hauksdóttir er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Sérstakur gistináttaskattur sem Alþingi hefur ákveðið að leggja á ferðaþjónustuna er illframkvæmanlegur og mun leiða til mikilla undanskota, segja Samtök ferðaþjónustunnar. En með því að undanskilja alla gistingu ferðafélaganna, svo sem Ferðafélags Íslands og Útivistar og alla gistingu stéttarfélaganna séu þingmenn að gera skattheimtuna enn vitlausari en ella. Með því muni sumir samkeppnisaðilar greiða skattinn en aðrir ekki.

Það var nú í lok haustþings sem Alþingi samþykkti breytingar á lögum um gistináttaskatt, sem taka á gildi um næstu áramót, og undanskildu hluta gistingar s.s. alla gistingu ferðafélaganna s.s. Ferðafélags Íslands og Útivistar svo og alla gistingu stéttarfélaganna.

Samtök ferðaþjónustunnar segjast hafa lagt mikla áherslu á það í upphafi að ef þingmönnum væri alvara með að leggja á gistináttaskatt þá væri mikilvægt að hann yrði greiddur af allri gistingu. En með þessari mismunun muni skipta máli hverjir reka fjallaskálana, hvort þeir þurfa að greiða gistináttaskatt eða ekki.

Samtök ferðaþjónustunnar mótmæla harðlega þessari geðþóttaákvörðun sem þau segja að gangi þvert á markmið laganna. Skattféð eigi að fara til þess að vernda og byggja upp ferðamannastaði. „Það skýtur því skökku við að ferðamenn sem fara um hálendið, einmitt um þá staði sem byggja á upp og vernda, munu margir hverjir sleppa við skattinn en þeir sem dvelja til dæmis á hótelum í Reykjavík, og fara jafnvel aldrei út fyrir bæinn, verða rukkaðir," segir í yfirlýsingu frá Samtökum ferðaþjónustunnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×