Innlent

Segjast ekki fá aðgengi að eineltismati

Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarness.
Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarness.
Bæjarstjórn Seltjarnarness harmar að meint eineltismál sé rekið í fjölmiðlum samkvæmt tilkynningu sem var send á fjölmiðla fyrir skömmu. Tilkynningin er afrakstur fundar sem bæjarstjórn hélt fyrr í dag þar sem farið var yfir ásakanir fyrrum framkvæmdastjóra Tækni- og umhverfissviðs hjá bænum, Ólafs Melsted, sem hefur verið frá vinnu vegna í rúmt ár.

Hann sakar bæjarstjórann, Ásgerði Halldórsdóttur, um að leggja sig í einelti og það styðja dómskvaddir matsmenn sem skoðuðu málið að áeggjan Héraðsdóms Reykjavíkur.

Ólafur krafðist þess að bæjarstjórinn viki vegna matsins, sem bæjarstjórn vill meina að hún fái ekki aðgang að samkvæmt tilkynningunni.

Í tilkynningu frá bæjarstjórninni kemur fram að þrátt fyrir ítrekaðar óskir, hafi matsgerðin ekki fengist afhent, en þess í stað hefur bæjarfulltrúum verið boðið upp á að fá aðgang að matsgerðinni á skrifstofu lögmanns viðkomandi starfsmanns undir sérstöku eftirliti fulltrúa á viðkomandi lögmannsstofu.

Bæjarstjórnin segir í tilkynningu að slík vinnubrögð geta fulltrúar bæjarstjórnar ekki fallist á, „enda venja að gagnaðili fái afhentar matsgerðir sem byggt er á."

Svo segir: „Á meðan matsgerðin fæst ekki afhent óskilyrt telur bæjarstjórn sér ekki fært að taka málefnalega og sanngjarna afstöðu til krafna starfsmannsins. Þegar bæjarstjórn fær afhenta viðkomandi matsgerð mun hún yfirfara hana gaumgæfilega og taka afstöðu til hennar. "


Tengdar fréttir

Ásgerður neitar því að hafa lagt Ólaf í einelti

Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, neitar ásökunum um einelti í garð fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá bænum. Dómkvaddir matsmenn komust að þeirri niðurstöðu að Ásgerður hefði lagt framkvæmdastjórann í einelti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×