Innlent

Sektum gegn rusli er ekki beitt

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Fleiri ruslastampar og aukin fræðsla eru meðal þess sem borgin er sögð geta beitt gegn rusli á almannafæri.
Fleiri ruslastampar og aukin fræðsla eru meðal þess sem borgin er sögð geta beitt gegn rusli á almannafæri. Fréttablaðið/pjetur
Ef sektir fyrir að fleygja rusli á almannafæri eiga að þjóna tilgangi sínum og hafa fælingarmátt þarf hert eftirlit og hærri sektir. Þetta segir deildarstjóri umhverfis- og úrgangsstjórnunar hjá Reykjavíkurborg.

Að því er segir í umsögn deildarstjórans til umhverfis- og skipulagsráðs hefur lögreglan einstaka sinnum sektað fólk fyrir að henda rusli. Upphæð sektarinnar fer eftir eðli og umfangi brotsins en lágmarkssekt er tíu þúsund krónur.

„Árið 2007 voru sautján sektaðir fyrir að fleygja rusli og fimm árið áður. Sektum fyrir að fleygja rusli á almannafæri hefur ekki verið beitt að neinu ráði síðustu ár, meðal annars vegna anna og manneklu innan lögreglunnar,“ segir í umsögninni, sem tekin var saman vegna ábendingar á vefnum Betri Reykjavík um refsingar fyrir að henda rusli. Þar lýstu sig 105 fylgjandi því en tíu sögðust andvígir.

Deildarstjórinn segir beinan kostnað vegna hreinsunar rusls í borgarlandinu nema um 60 milljónum króna. Skoða megi hvort sekta eigi fólk á staðnum. „Rétt er að benda á að það að sekta einstaklinga fyrir að henda rusli eitt og sér mun einungis taka á hluta vandans þar sem rusl á almannafæri á sér fleiri uppsprettur,“ segir í umsögninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×