Innlent

Semja um stuðning við afganskar flóttafjölskyldur

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og Jón Gnarr borgarstjóri
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og Jón Gnarr borgarstjóri
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og Jón Gnarr borgarstjóri undirrituðu í dag samning sem kveður á um aðstoð og stuðning sem Reykjavíkurborg mun veita þremur afgönskum flóttafjölskyldum frá Íran sem komu til landsins í lok nýliðins árs. Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu frá ráðuneytinu og borginni.

Flóttafólkið; þrjár konur ásamt fjórum börnum og tveimur ungmennum, er búsett í Reykjavík. Börnin eru byrjuð í skóla og konurnar stunda nám í íslensku.

Samkvæmt samningnum er gert ráð fyrir samstarfi milli Reykjavíkurborgar, Rauða kross Íslands og velferðarráðuneytisins um aðstoð og þjónustu við þessar fjölskyldur og var samningur um aðkomu Rauða krossins að verkefninu undirritaður skömmu fyrir áramót.

Reykjavíkurborg sér meðal annars um að útvega fjölskyldunum húsnæði, ber ábyrgð á að veita þeim félagsráðgjöf og fjárhagsaðstoð samkvæmt reglum borgarinnar, greiða fyrir túlkaþjónustu, veita leik- og grunnskólamentun ásamt sértækum stuðningi við kennslu og sérfræðiþjónustu skóla eftir því sem það á við. Borgin mun einnig taka þátt í fræðslu- og kynningarstarfi ásamt velferðarráðuneytinu og Rauða krossi Íslands fyrir samstarfsaðila sem koma að þjónustu við fjölskyldurnar.

Samningurinn gildir til 19. desember 2013 og er miðað við að Reykjavíkurborg skili velferðarráðuneytinu stöðumatsskýrslum um aðstæður fjölskyldnanna, þann 1. apríl næstkomandi og við lok verkefnis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×