Innlent

Sendifulltrúi AGS: Almennar afskriftir of dýrar

Sigríður Mogensen skrifar

Sendifulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hér á landi segist telja að núverandi skuldaúrræði dugi heimilum í landinu og fólk þurfi að byrja sem fyrst að nýta sér þau úrræði. Almennar afskriftir á skuldum yrðu of þungbærar fyrir Ríkissjóð og lífeyrissjóðina í landinu.

„Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir að ríkisstjórnin hefur gert margt," sagði Franek Rozwadowski, sendifulltrúi AGS á Íslandi.

„Hún hefur gert áætlun sem, að þeirra áliti og okkar, nægir til að taka á skuldavanda þeirra heimila sem eru hvað verst sett," segir Franek.

En hvað með flatar afskriftir á skuldum?

„Almenn lækkun skulda myndi vera afar kostnaðarsöm fyrir ríkið og auka skuldir ríkisins verulega," segir Franek og segir að þegar uppi væri staðið myndu skattgreiðendur borga slíkt.

Hann segir að það kæmi niður á þjóðinni í formi hærri skatta eða enn meiri niðurskurðar. Flatar afskriftir myndu valda Íbúðalánasjóði og lífeyrissjóðunum miklu tjóni.

Í nýjustu skýrslu AGS segja starfsmenn sjóðsins að stjórnvöld þurfi að senda út skýr skilaboð til að halda niðri væntingum um frekari skuldaúrræði. Spurður út í þetta atriði svaraði Franek því til að ef heimilin telji að það sé alltaf betri samningur handan við hornið þá verða sífellt tafir á því að tekið sé á vanda þeirra.

„Og það er ekki gott fyrir þau og það er ekki gott fyrir efnahag þjóðarinnar," segir Franek.

Þess ber að geta að sendifulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins segist ekki geta tjáð sig um fjöldamótmælin sem verið hafa hér á landi, né pólitískan óstöðugleika. Hann segir það ekki vera hlutverk sjóðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×