Innlent

Sendiherra Bandaríkjanna breyttist í uppvakning

Erla Hlynsdóttir skrifar
Uppvakningar eru ekki dagleg sjó á götum Reykjavíkur en hópur þeirra safnaðist saman á Hlemmi síðdegis. Þeirra á meðal var sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi sem segir mikilvægt að eiga góð samskipti við íslenska uppvakninga.

Það var heldur óhugnanlegt um að litast í bandaríska sendiráðinu við Laufásveg þegar fréttastofa Stöðvar 2 leit þar við síðdegis en þar var engu líkara en að allir starfsmenn þess hefðu breyst í uppvakninga. Þegar betur var að gáð voru þetta einungis gervi, búin til með aðstoð lipurra förðunarfræðinga.

Zombíar í miðborginni.Mynd/Stefán Karlsson
Sendiherrann sjálfur var meðal þeirra sem tók hlutverkið mjög alvarlega.

„Utanríkisþjónusta á 21. öld krefst þess að við náum til kima sem við höfum ekki gert áður. Mjög mikilvægur hluti af íslensku samfélagi eru íslenskir uppvakningar. Við viljum ná til þeirra og tala við þá," sagði Luis Arreaga, sendiherra Bandaríkjanna og uppvakningur.

Upplitsdjarfir uppvakingar.Mynd/ Stefán Karlsson
Ástæðan fyrir uppákomunni er að sendiráðið stendur í kvöld fyrir forsýningu á þætti um uppvakninga, The Walking Dead, í samstarfi við Skjá einn sem sýnir þáttaröðina.

Og það var engu líkara en að veröldin eins og við þekkjum hafa hefði liðið undir lok þegar hópur uppvakninga safnaðist saman nú rétt fyrir fréttir, með sendiherrann fremstan í flokki. Hægt er að sjá myndband frá þessu með því að horfa á myndskeiðið hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×