Viðskipti innlent

Sértryggð skuldabréf Kaupþings flutt til Arion banka

Náðst hefur samkomulag við eigendur sértryggða skuldabréfa sem Kaupþings gaf út um að eignir og skuldbindingar þeim tengdum verði fluttar yfir til Arion banka.

Fjallað er um málið á vefsíðu skilanefndar Kaupþings. Þar egir að Kaupþing gaf út fjóra flokka af sértryggðum skuldabréfum á árunum 2006-2008 sem tryggð voru af Kaupthing Mortgage Institutional Investor Fund (KMIIF), dótturfélagi Kaupþings.

Tilgangurinn með útgáfu sértryggðu skuldabréfanna var að fjármagna íbúðalánasafn að verðmæti rúmlega 120 milljarða króna sem Kaupþing átti í gegnum KMIIF. Á síðustu mánuðum hefur Kaupþing unnið að endurskipulagningu sem felur í sér flutning á eignum og skuldbindingum sem tengjast KMIIF og sértryggðu skuldabréfunum til Arion banka.

Eftir að hafa náð samkomulagi við Arion banka, boðaði Kaupþing til funda með eigendum sértryggðra skuldabréfa sem haldnir voru 20. janúar síðastliðinn, þar sem lögð var fram tillaga að endurskipulagningu. Tillagan var samþykkt með 100% atkvæða skuldabréfaeigenda.

Fyrir vikið mun Arion koma í stað Kaupþings sem útgefandi bréfanna og yfirtaka KMIIF. Kröfum á hendur Kaupþingi vegna sértryggðra skuldabréfa var þrílýst og nema nú um 278 milljörðum króna og þar af hafa kröfur að fjárhæð 68 milljarða króna verið samþykktar af slitastjórn Kaupþings. Endurskipulagningin felur í sér afturköllun á öllum kröfum á hendur Kaupþingi í tengslum við sértryggðu skuldabréfin. Í kjölfar þessarar endurskipulagningar hafa kröfur á hendur Kaupþingi því lækkað um ofangreindar fjárhæðir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×