Viðskipti innlent

Sex milljarðar í gróðurhús

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Reisa á hátækni gróðurhús í Grindavík. Það verður í svipuðum stíl og myndin gefur til kynna.
Reisa á hátækni gróðurhús í Grindavík. Það verður í svipuðum stíl og myndin gefur til kynna. Mynd/EsBro
Hollenskt fyrirtæki áformar að reisa gróðurhús í útjaðri Grindavíkur sem verður á stærð við tuttugu fótboltavelli. Fulltrúi hollenska fyrirtækisins segir verkefnið á lokastigum. 125 störf munu skapast.

„Við erum sannfærðir um að þetta gróðurhús verði að veruleika,“ segir Michael Veisser, fulltrúi hollenska fyrirtækisins EsBro, sem vill reisa 150 þúsund fermetra gróðurhús í útjaðri Grindavíkur. Áætlaður kostnaður við byggingu gróðurhússins er á bilinu 5 til 6,5 milljarða króna og því ljóst að um gífurlega fjárfestingu er að ræða. Samningur er fyrir hendi við birgja á Bretlandi sem meðal annars sinna verslunarkeðjunni Tesco sem rekur yfir 6.300 verslanir á Bretlandseyjum. Rækta á lífræna tómata og verður framleiðslan í heild sinni seld á Bretlandseyjum. Um 125 störf skapast fari svo að gróðurhúsið rís.

Fulltrúar EsBro héldu íbúafund um málið í Grindavík á miðvikudag. Þar kom fram að helsta áhyggjuefni Grindvíkinga er ljósmengun sem gæti skapast vegna gróðurhússins. Fyrirtækið segir þær áhyggjur ástæðulausar.

„Það er ekkert í augnablikinu sem við sjáum koma í veg fyrir að við hefjumst handa á næstu mánuðum. Íbúar Grindavíkur hafa mikið um þetta að segja. Ef þeir kæra sig ekki um þessa framkvæmd munum við virða það og færa okkur annað. Við munum reyna að eiga eins gott samstarf við Grindvíkinga og við getum – það er hvorum tveggja fyrir bestu,“ segir Veisser.

Michael Veisser er bjartsýnn á að reisa gróðurhús fyrir tómatarækt í Grindavík.Mynd/Jón Júlíus





Fleiri fréttir

Sjá meira


×