Innlent

Sigmundur ekki sagt af sér heldur stigið til hliðar um óákveðinn tíma

Bjarki Ármannsson og Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifa
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur ekki sagt af sér sem forsætisráðherra, heldur lagt til að Sigurður Ingi Jóhannsson taki við embættinu um óákveðinn tíma.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur ekki sagt af sér sem forsætisráðherra, heldur lagt til að Sigurður Ingi Jóhannsson taki við embættinu um óákveðinn tíma. Vísir/Vilhelm
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur ekki sagt af sér sem forsætisráðherra, heldur lagt til að Sigurður Ingi Jóhannsson taki við embættinu um óákveðinn tíma.

Áhersla er lögð á þetta í tölvupósti á ensku sem upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar sendi erlendum blaðamönnum í kvöld.

Fjölmiðlar á Íslandi og víða um heim hafa greint frá því í dag að Sigmundur Davíð hafi látið af embætti og flestir talað um afsögn í því samhengi. Svo virðist sem þetta orðalag þyki heldur ónákvæmt.

Nokkrir þeirra blaðamanna sem fengu bréfið birta brot úr því á Twitter og furða sig á því.

„Yfirlýsingin segir nákvæmlega það sem gerðist í dag,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs. „Að forsætisráðherra hafi ekki sagt af sér en hann hafi lagt það til við þingflokk Framsóknarmanna að hann stigi til hliðar og að Sigurður Ingi taki við sem forsætisráðherra um óákveðinn tíma.

Óákveðinn tími getur til dæmis verið fram að kosningum, það er greinilega miðað við það sem menn eru að ræða í kvöld ekki alveg ljóst hvenær menn vilja hafa kosningar.“

Er hann ósáttur við orðalag erlendra fjölmiðla?

„Við fáum fyrirspurnir frá erlendum fjölmiðlum sem segja: Er það rétt sem við heyrum að forsætisráðherra hafi sagt af sér?“ segir hann. „Við erum stödd í því limbói núna að forsætisráðherra hefur ekki sagt af sér. Hann hefur hins vegar lagt það til að hann stígi til hliðar. Þegar hann fer og skilar sínu umboði þá verður það tilkynnt erlendum fjölmiðlum eins og öllum öðrum.“

Tillaga Sigmundar Davíðs hljómar svona orðrétt:

„Forsætisráðherra leggur til að varaformaður flokksins taki við embætti forsætisráðherra svo það megi verða til að ríkisstjórnin geti lokið þeim mikilvægum verkum sem hún hefur unnið að og varða mikilvæga þjóðarhagsmuni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×