Innlent

Sigöldufoss sést á ný á fullu afli

Sigöldufoss, sem hvarf að mestu þegar Tungnaá var stífluð við Sigöldu fyrir aldarþriðjungi, er nú sýnilegur á ný í öllu sínu veldi. Áratugir gætu liðið áður en næsta tækifæri býðst til að sjá fossinn eins mikilúðlegan og hann verður næstu þrjár vikur.

Þegar virkjað var við Sigöldu á árunum 1973 til 1977 var Tungnaá tekin úr sínum náttúrulega farvegi og sett í inntaksskurð og fallpípur niður í stöðvarhús til að framleiða raforku. En nú er búið að stöðva virkjunina vegna viðhaldsvinnu sem þýðir að Tungnaá er hleypt undir Sigöldustíflu og í gegnum botnrás sem skilar ánni allri á ný í sinn gamla farveg í Sigöldugljúfri. Þarna buna þessa dagana niður í gljúfrið um tvöhundruð rúmmetrar jökulvatns á hverri sekúndu. Fallhæð virkjunarinnar er 74 metrar sem dugar í 150 megavatta afl en alla þessa orku má nú sjá óbeislaða falla niður gljúfrið.

Mesti krafturinn er í Sigöldufossi en svona magnaður hefur hann aðeins tvívegis sést eftir að virkjunin var gangsett, síðast fyrir sextán árum. Daði Viðar Loftsson, vinnslustjóri Landsvirkjunar á Þjórsársvæði, segir að þótt alltaf sé eitthvað vatn á fossinum sé hann nú kröftugri en í eðlilegum rekstri virkjunarinnar.

Sigöldufoss er um tíu metra hár og er vel aðgengilegur ferðamönnum. Fossinn er skammt ofan brúarinnar á leiðinni inn í Landmannalaugar. Hægt er aka að honum nánast alla leið á malbikuðum vegi úr Reykjavík, en þangað er tæplega tveggja stunda akstur úr borginni. Menn hafa tækifæri fram undir miðjan ágústmánuð til að sjá fossinn svona mikilfenglegan. Næsta tækifæri gefst hugsanlega ekki fyrr en eftir tuttugu ár eða svo.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×