Innlent

Sigu niður 27 metra háan vegg: Miklu erfiðara en að ganga upp á fjöll

Frá klifrinu í dag.
Frá klifrinu í dag.
Sig- og björgunarsveitarmennirnir Andrés Róbertsson og Jónas Grétar Sigurðsson, kalla ekki allt ömmu sína þegar kemur að mikilli hæð. Nú í kvöld ráku gestir Borgartúns upp stór augu þegar þeir sáu kappana síga niður himinháan vegg.

Þarna voru þeir Andrés og Jónas Grétar að æfa sig í að síga og klifra upp 27 metra háan vegg. Tilgangurinn er að æfa sig fyrir mót sem verður haldið á Menningarnótt og er á vegum Klifurfélags Reykjavíkur.

Það tekur þá eina og hálfa mínútu að síga niður, „en við erum í korter að klifra upp," útskýrir Andrés sem viðurkennir að það geti verið óhugnanlegt að síga niður svo miklar hæðir. „Þetta er skuggalegt en skemmtilegt," segir Andrés.

Sjálfir hafa þeir sigið við erfiðari aðstæður en þeir hafa bjargað fjallgöngumönnum í neyð. Þeir hafa að auki heilmikla reynslu, enda búnir að stunda klifur í átta ár.

Spurður hvort þetta sé svipað og að klífa fjall, svarar Andrés: „Nei, þetta er miklu erfiðara."

Hann segir klifurfélagið sífellt bæta við sig nýjum liðsmönnum. Spurður hvort þetta sé hið nýja jaðarsport svarar Andrés einfaldlega: „Já ætli það ekki."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×