Viðskipti innlent

Síminn kaupir Sensa

Valgerður Hrund Skúladóttir, framkvæmdastjóri Sensa, og Páll Ásgrímsson framkvæmdastjóri Lögfræðisviðs Símans, við undirritun viðskiptanna.
Valgerður Hrund Skúladóttir, framkvæmdastjóri Sensa, og Páll Ásgrímsson framkvæmdastjóri Lögfræðisviðs Símans, við undirritun viðskiptanna.
Síminn hefur gengið frá kaupum á öllum hlutabréfum í þjónustufyrirtækinu Sensa ehf. Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins en kaupverð er trúnaðarmál.

Samningaviðræður milli fyrirtækjanna hafa staðið yfir undanfarnar vikur. En markmið með kaupunum er að styrkja enn frekar þjónustu og ráðgjöf Símans til fyrirtækja bæði innanlands og erlendis, að því er segir í tilkynningu frá Símanum.

Fyrri eigendur Sensa og stofnendur fyrirtækisins munu allir starfa áfram hjá fyrirtækinu eftir eigendaskiptin og verður ekki gerð breyting á rekstrarformi félagsins eftir kaupin.

Sensa ehf. er þjónustufyrirtæki með sérfræðiþekkingu á sviði IP samskiptalausna. Áhersla er lögð á að uppfylla sífellt vaxandi þörf íslenskra fyrirtækja og stofnana fyrir samskiptahætti og leiðir sem uppfylla kröfur um áreiðanleika, öryggi og afköst.

Sensa var stofnað árið 2002 og starfa 17 starfsmenn með mikla þekkingu á IP samskiptalausnum hjá fyrirtækinu sem er eina fyrirtækið hér á landi sem hefur hlotið silfurvottun (Silver Certified Partner) frá Cisco Systems Inc. Sensa var jafnframt valið fyrirmyndar fyrirtæki ársins 2006 í hópi minni fyrirtækja af VR.

Velta fyrirtækisins í fyrra nam 997 milljónum króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×