Enski boltinn

Sir Alex: Það hefur enginn gert meira fyrir Arsenal en Wenger

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alex Ferguson og Arsene Wenger.
Alex Ferguson og Arsene Wenger. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, hefur varað stuðningsmenn Arsenal við því að grasið sé örugglega ekki grænna á hinum bakkanum en óánægðir stuðningsmenn Arsenal vilja margir hverjir að Arsene Wenger stigi niður úr stjórastólnum.

„Það væri gaman að fá að vita hver ætti að koma í staðinn fyrir hann. Það hefur enginn gert meira fyrir Arsenal en það sem Arsene Wenger hefur gert á síðustu fimmtán árum. Hann hefur kannski ekki unnið titil í sex ár en hvað þýðir það. Gæði liðsins hefur ekki dalað," sagði Sir Alex Ferguson.

Manchester United tekur á móti Arsenal í ensku úrvalsdeildinni um helgina en Arsenal hefur aðeins fengið eitt stig út úr fyrstu tveimur leikjum sínum á nýju tímabili og á enn eftir að skora mark.

Það létti þó nokkuð á pressunni á Wenger að Arsenal tókst að slá út Udinese og komast inn í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

„Chelsea hefur blandað sér í baráttuna og nú er Manchester City líka mætt í slaginn. Við vorum í við hörku keppni við Arsenal í átta ár en nú er samkeppnin orðin miklu meiri," sagði Ferguson sem vill koma Wenger til varnar.

„Hann hefur fengið ósanngjarna gagnrýni frá stuðningsmönnum sínum en fótboltinn í dag er kaldranalegur heimur. Það er mun erfiðara að gleðja stuðningsmenn liðsins í dag en það var fyrir 20 árum og það veldur manni miklum vonbrigðum," sagði Sir Alex.

„Arsenal-liðið svaraði gagnrýninni á miðvikudaginn og náði frábærum úrslitum. Þeir ætla sér örugglega að halda áfram á sömu brayt á móti okkur á sunnudaginn," sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×