Enski boltinn

Sir Alex vill að sínir menn taki í höndina á bæði Terry og Suarez

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrice Evra og Rio Ferdinand.
Patrice Evra og Rio Ferdinand. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, mun ráðleggja bæði Rio Ferdinand og Patrice Evra að taka í höndina á John Terry og Luis Suarez fyrir komandi leiki Manchester United á móti Chelsea og Liverpool. Þetta verða fyrstu leikir United á móti þeim Terry og Suarez síðan að þeir voru sakaðir um kynþáttafordóma gegn bróðir Rio og Evra.

Leikmenn tókust ekki í hendur fyrir bikarleik QPR og Chelsea um síðustu helgi en það var ákveðið í kjölfarið á umræðu um að Anton Ferdinand ætlaði ekki að taka í höndina á John Terry. Rio Ferdinand, bróðir Antons, hefur stutt hann opinberlega og það hefur verið orðrómur í gangi að hann ætli ekki að taka í höndina á John Terry fyrir leik Chelsea og Manchester á sunnudaginn.

„John Terry mun sennilega ekki spila þennan leik þannig að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því," sagði Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United en Terry er tæpur fyrir leikinn vegna meiðsla.

„Ég mun samt ræða við Rio til að sjá hver staða hans er í þessu máli. Hann hefur barist gegn kynþáttafordómum í mörg ár og þessi mál hafa alltaf skipt hann miklu máli þann tíma sem ég hef þekkt hann. Hann verður samt að komast yfir þetta og það að taka í höndina á Terry er ekkert til að skammast sín fyrir," sagði Ferguson.

„Það er sömu sögu að segja um næstu helgi þegar Patrice Evra mætir Liverpool. Patrice hefur þegar sýnt hugrekki með því að berjast á móti kynþáttaformdómum gegn sér og hann þarf ekki að skammast sín fyrir neitt. Ég held að það verði ekki vandamál hjá honum að taka í höndina á Suarez," sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×