Verulega hefur dregið úr gosinu síðustu daga og virðist samfelld hrauntjörnin í Holuhrauni vera að lokast. Þyrluflugmaðurinn Reynir Freyr Pétursson frá Reykjavík Helicopters flaug yfir gosstöðvarnar á þriðjudag og hafði þá dregið verulega úr hraunflæði og hrauntjörnin ekki lengur samfelld. Tók Reynir Freyr meðfylgjandi myndbönd sem sýna samanburð á gosinu dagana 5. desember, 12. desember, 31. janúar og 17. febrúar.

Haraldur birti línurit í janúar síðastliðnum sem sýndi að sig Bárðarbungu hefði verið afar reglulegt frá upphafi og fékk það út samkvæmt reiknijöfnu að línan yrði orðin lárétt eftir um 160 daga frá því mælingar hófust 12. september, 2014. Spáði Haraldur því í kjölfarið að sigið í Bárðarbungu myndi hætta í byrjun marsmánaða.