Innlent

Sjaldnast veitt ráðgjöf er lyf eru keypt í apótekum sýnir rannsókn

Snærós Sindradóttir skrifar
Starfsfólk apótekanna hafði frumkvæði að ráðgjöf um lausasölulyf í 13 prósent tilfella.
Starfsfólk apótekanna hafði frumkvæði að ráðgjöf um lausasölulyf í 13 prósent tilfella. vísir/getty
Tæplega sjötíu prósent viðskiptavina lyfjaverslana hér á landi fengu ekki ráðgjöf eða leiðbeiningar þegar keypt voru ólyfseðilsskyld lyf í fyrra.

Samkvæmt rannsókn sem hópur innan Samtaka verslunar og þjónustu lét gera hafði starfsfólk apóteka frumkvæði að ráðgjöf í 13,4 prósent tilvika.

Í rannsókninni kemur jafnframt fram að ríflega 93 prósent þátttakenda sem ekki fengu ráðgjöf þótti það ekki skipta máli.

Hópurinn, sem vill auka frelsi í viðskiptum með lausasölulyf þannig að almennar verslanir geti selt minni pakkningar af vægum lyfjum sem ekki eru lyfseðilskyld, lét gera rannsóknina í upphafi síðasta árs. Þátttakendur voru tæplega sex þúsund talsins.

Í Fréttablaðinu á mánudag voru hugmyndir hópsins viðraðar. Þar sagði Lóa María Magnúsdóttir, formaður Lyfjafræðingafélags Íslands, að lyfjafræðingar teldu mikilvægt að auka ekki frelsið frekar vegna þess öryggis sem fælist í því að lyfjafræðingur á vakt í apóteki bæri ábyrgð á sölunni.

Brynjúlfur Guðmundsson, sem fer fyrir hópnum um lausasölulyfin, segir að rannsóknin varpi ljósi á það hversu lítið er um ráðgjöf og leiðbeiningar til handa viðskiptavinum. Viðskiptavinir sem vilji leiðbeiningar um inntöku vægra verkjalyfja, ofnæmislyfja og magalyfja, komi enn til með að geta leitað til apóteka eftir aðstoð.

Brynjúlfur segir að uppi séu hugmyndir um að auka framboð af smærri pakkningum verkjalyfja ef sala á lausasölulyfjum verður gefin frjáls. Sem dæmi séu hugmyndir um að selja paracetamol með tíu skömmtum.

„Það er 1,6 sinnum hámarksskammtur samkvæmt leiðbeiningum frá Lyfjastofnun en það sem þú getur keypt í apótekum núna er fimmfaldur og allt upp í ríflega þrjátíufaldur hámarksskammtur. Þannig að það eru miklu meiri líkur á að misnotkunin verði af völdum pakkninga sem eru seldar í apótekum.“ 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×