Viðskipti innlent

Sjálfstæð gagnvart kröfuhöfum

"Ég er sjálfstæður stjórnarmaður og við í stjórninni rekum þennan banka á sjálfstæðan máta gagnvart eigendum hans,“ segir Monica Caneman.
"Ég er sjálfstæður stjórnarmaður og við í stjórninni rekum þennan banka á sjálfstæðan máta gagnvart eigendum hans,“ segir Monica Caneman.
Monica Caneman hefur verið stjórnarformaður Arion banka í tæp tvö ár. Hún sagði Þórði Snæ Júlíussyni frá upplifun sinni á íslenska bankageiranum, krefjandi verkefnum og að það megi vel kenna bönkunum um margt sem gerðist á Íslandi fyrir hrun.



„Ég veit að það er ekki auðvelt að vinna í bankageiranum í kreppum og að ýmsar meiningar eru um starfsemi bankanna á slíkum tímum. En mér hefur fundist mikið til starfsfólks bankans koma og þeirrar þekkingar sem það býr yfir," segir Monica Caneman, stjórnarformaður Arion banka.

Monica, sem er sænsk, tók við starfi stjórnarformanns vorið 2010. Hún situr sem sjálfstæður stjórnarmaður og er því ekki eiginlegur fulltrúi neins eiganda. Monica hefur töluverða reynslu af bankastarfsemi á krepputímum þar sem hún sat í framkvæmdastjórn sænska bankans Skandinaviska Enskilda (SEB) í bankakreppunni í Svíþjóð á tíunda áratug síðustu aldar. Hún segir undanfarin tæp tvö ár hafa verið erfið en lærdómsrík.

„Þegar ég réð mig í starfið voru aðstæður á Íslandi mjög sérstakar. Landið var í miðri kreppu og Arion banki sjálfur var tiltölulega nýr, þótt hann byggði á gömlum grunni. Það var að mjög mörgu að huga innan bankans. Þetta hafa því verið tvö frekar krefjandi ár fyrir stjórnina og flestalla starfsmenn bankans sem fylgt hefur mikið álag."

Stórar áskoranirAðspurð um hverjar stærstu áskoranirnar hafi verið þá segir Monica þær hafa verið að búa til starfhæfan banka.

„Þegar ég kom að áttu margir viðskiptavina Arion banka við mikil vandamál að stríða. Síðan þá hefur verið unnið að því innan bankans að sigrast á þeim vandamálum og ná árangri í endurskipulagningu fyrir marga viðskiptavini okkar. Það að búa til bankann, takast á við þau vandamál sem hann glímdi við og að sjá til þess að bankinn yrði starfhæfur til framtíðar voru stærstu áskoranirnar. Að mínu mati erum við að þoka okkur út úr þessum endurskipulagningarfasa og inn í nýja tíma þar sem kröftum starfsmanna bankans verður í mun meiri mæli beint að venjubundinni bankastarfsemi. Það er því komið að þeim tímapunkti að við getum farið að horfa fram á við í ríkari mæli."

Ekki í útrásHún telur möguleika íslensku bankanna þó fyrst og síðast liggja á heimamarkaði. Ný útrás sé ekki fyrirhuguð.

„Arion banki er íslenskur banki og þetta er okkar heimamarkaður. Við erum ekki að horfa til þess að kaupa erlenda banka eða annað slíkt. Við erum hins vegar með viðskiptavini sem hafa þörf fyrir bankaþjónustu erlendis og það skiptir okkur máli að geta veitt þeim þjónustu. Það verður fyrst og síðast í gegnum samstarf við aðra banka.

Við erum alhliða banki og ætlum okkur að vinna með fyrirtækjum jafnt sem einstaklingum. Það eru tækifæri á öllum sviðum og möguleikar fyrir okkur til að vaxa. Í viðskiptabankastarfseminni höfum við kynnt ýmsar nýjar vörur, til dæmis óverðtryggð húsnæðislán. Þau hafa fengið góðar viðtökur.

Vissulega er eftirspurn eftir sumum þáttum bankaþjónustu ekki mikil sem stendur. Það fer þó vonandi að taka við sér. Það er líka hlutverk bankans að koma fram með nýjar lausnir og góðar vörur sem laða að viðskiptavini."

Sjálfstæð gagnvart eigendumEignarhaldið á Arion banka er í dag með þeim hætti að Kaupskil ehf., félag í eigu slitastjórnar Kaupþings, á 87% hlut og íslenska ríkið á 13%. Monica segir það vera langtímastefnu eigendanna að bankinn verði seldur. Með hvaða hætti og til hverra verði framtíðin að leiða í ljós.

„Þegar ég byrjaði hérna var áætlunin sú að bankinn yrði seldur á fimm árum. Það gæti orðið aðeins lengri tími eða aðeins skemmri. Okkar hlutverk í stjórninni er að gera stöðu bankans eins góða og hægt er og við höfum skýrt umboð frá eigendum okkar til þess. En í framtíðinni mun eignarhaldið örugglega taka breytingum frá því sem það er í dag. Hvernig bankinn verður seldur eða til hvers er eitthvað sem eigendur hans hafa með að gera. Það er spurning sem þeir verða að svara."

Kröfuhafar Kaupþings, sem í raun eiga Arion banka, hlaupa á þúsundum. Á meðal þeirra eru alþjóðlegir bankar og vogunarsjóðir sem keypt hafa skuldabréf á bankann á eftirmarkaði með það að markmiði að græða á því. Monica segir að stjórn Arion banka hafi engin samskipti við kröfuhafana.

„Ég veit ekkert hverjir þeir eru. Fyrir mér eru þeir óþekktur hópur. Eigendur Arion banka eru tveir: Kaupskil og íslenska ríkið. Við eigum í samskiptum við þessa eigendur til dæmis á ársfundum. Að öðru leyti er stjórn bankans sjálfstæð. Ég er sjálfstæður stjórnarmaður og við í stjórninni rekum þennan banka á sjálfstæðan máta gagnvart eigendum hans."

Samkeppni af hinu góða
Monica Caneman.
Á Íslandi starfa þrír stórir viðskiptabankar auk fjölda minni fjármálafyrirtækja. Iðulega hefur komið fram sú gagnrýni að íslenska bankakerfið sé allt of stórt fyrir ekki stærra samfélag. Monica telur það ástand sem er á íslenskum markaði bæði hafa kosti og galla.

„Að sumu leyti er hægt að rökstyðja að það séu of margir bankar hérna. Það eru hins vegar tvær hliðar á þessu máli. Þessi fjöldi er nefnilega góður fyrir samkeppni. Það gerir að verkum að það er krefjandi að verða besti valkosturinn á markaðinum."

Monica lét hafa eftir sér í ársskýrslu Samtaka fjármálafyrirtækja á síðasta ári að stjórnmálamenn á Íslandi virtust telja það greiðustu leið til vinsælda að gagnrýna bankanna. Hún stendur fullkomlega við þau orð. „Mér finnst mikilvægt að stjórnmálamenn búi til umhverfi þar sem fólk upplifir ekki óvissu heldur er afslappað varðandi framtíðina. Við þannig aðstæður held ég að efnahagslífið taki við sér á jákvæðan hátt. Það má kenna bönkum um margt sem gerðist á Íslandi. En til framtíðar þá þarf gott og stöðugt bankakerfi til að byggja upp stöðugleika og hagsæld á Íslandi. Það hagnast því allir á því að vera með áreiðanlegt bankakerfi."

Eðlilegt að bankar eignist fyrirtækiFréttablaðið hefur fjallað ítarlega um eignarhald banka á fyrirtækjum í óskyldum rekstri á undanförnum mánuðum, en þau voru 132 talsins í nóvember síðastliðnum. Að sögn Monicu er þetta því miður eðlilegur fylgifiskur efnahagskreppu.

„Að taka yfir fyrirtæki er alltaf það síðasta sem banki vill gera. Það er lokaúrræði. Í þrengingum verður að taka tillit til tvennra mismunandi hagsmuna. Annars vegar ertu að eiga við viðskiptavin bankans og verður að veita honum þá möguleika sem eru til staðar til að komast með sem bestum hætti út úr þeim aðstæðum sem eru uppi. Á hinn bóginn verður að hafa hagsmuni bankans til hliðsjónar.

Ég held að þessir hlutir þurfi oft að taka tíma. Við Svíar fórum í gegnum svona ferli þegar við lentum í okkar bankakreppu á tíunda áratugnum. Sumar þeirra eigna sem bankarnir tóku þá yfir tók nokkur ár að selja. Markaðsaðstæður leyfðu það einfaldlega ekki fyrr. Ef ekki er eftirspurn eftir tilteknum tegundum af fyrirtækjum og við getum ekki skapað slíkar aðstæður, þá er erfitt að selja. Þetta er því náttúrulegt ástand við svona aðstæður."

Íslendingar eiga að horfa fram á viðMonica telur að Íslendingum ætti að finnast mikið til þess koma hversu fljótt landið virðist vera að ná sér eftir efnahagshrunið.

„Hagvöxtur hér er 2-3% sem er mun hærra en hjá flestum ríkjum Evrópu. Þegar ég les greinar um Ísland í erlendum fjölmiðlum eru þær mjög jákvæðar. Þær fjalla um að landið sé að ná sér hratt eftir efnahagsáföll og á listum yfir þau lönd sem ferðamenn vilja helst heimsækja er Ísland oftar en ekki í fyrsta sæti. Efnahagur landsins, í samanburði við mörg önnur lönd í Evrópu, er mjög sterkur. Ísland hefur jafnað sig nokkuð vel og hratt. Að mínu mati væri það Íslendingum mjög hollt að dvelja ekki um of við fortíðina og einbeita sér, reynslunni ríkari, að framtíðinni og möguleikum landsins."





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×