Innlent

Sjálfstæðisflokkurinn fengi 41 prósent yrði kosið í dag

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Sjálfstæðisflokkurinn fengi fjörutíu og eitt prósent atkvæða ef gengið yrði til kosninga í dag. Þetta kemur fram í nýrri könnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins. Samkvæmt henni er Björt framtíð orðinn þriðji stærsti flokkur landsins, og eina nýja framboðið sem fær meira en fimm prósenta fylgi.

Samkvæmt könnuninni, sem framkvæmd var af 365 fyrir Stöð 2 og Fréttablaðið, fengi Sjálfstæðisflokkurinn fjörutíu og eitt prósent atkvæða ef gengið yrði til kosninga nú og hefur hann nokkra yfirburðastöðu. Samfylkingin fengi nítján prósent atkvæða en nýliðarnir í Bjartri framtíð eru samkvæmt þessu þriðji stærsti flokkur landsins með þrettán prósenta fylgi. Þar á eftir kemur Framsóknarflokkurinn með tólf prósent. Hjá Vinstri grænum er á brattann að sækja, flokkurinn mælist nú með sjö prósenta fylgi en fékk tæp 22 prósent í síðustu kosningum.

Spurt var hvaða listi yrði fyrir valinu ef gengið yrði til þingkosninga í dag. Þeir sem voru óákveðnir voru þá spurðir hvaða flokk þeir myndu líklegast kjósa. Þeir sem enn voru óákveðnir voru þá spurðir hvort líklegra væri að þeir myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern annan flokk.

Björt framtíð er eina nýja framboðið sem nær marktækum árangri en hinir nýju flokkarnir eru að mælast með fylgi á bilinu 0 til tvö prósent.

Ef litið er til þess hvers kyns svarendur eru kemur í ljós að Björt framtíð nýtur mun meiri stuðnings á meðal karla en kvenna. Átján prósent karla ætla að kjósa Bjarta framtíð en aðeins átta prósent kvenna. Framsóknarmenn eru heldur sterkari hjá karlpeningnnum en hjá Sjálfstæðisflokki skiptir kyn ekki máli. Samfylkingin er hinsvegar sterkari á meðal kvenna og sama er að segja um VG.

Hringt var í 1.342 manns þar til náðist í 803 manns samkvæmt lagskiptu úrtaki miðvikudaginn 16. janúar og fimmtudaginn 17. janúar. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarshlutfall var 59,8%. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni, og hlutfallslega eftir búsetu og aldri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×