Innlent

Sjálfstæðiskona á Suðurlandi um ráðherravalið: „Verið að gefa landsbyggðinni fingurinn“

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Formaður kjörstjórnar Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi segir að ný ríkisstjórn sé að gefa landsbyggðinni fingurinn með skipun í ráðherrastóla en átta af ellefu ráðherrum koma af höfuðborgarsvæðinu.

Í síðustu ríkisstjórn átti Suðurkjördæmi tvo ráðherra, eða þau Ragnheiði Elínu Árnadóttur frá Sjálfstæðisflokki og Sigurð Inga Jóhannsson frá Framsóknarflokki.

Kjördæmið á hins vegar engan ráðherra í nýrri ríkisstjórn. Það geta Sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi ekki sætt sig við, Kjartan Björnsson, hárskeri og forseti bæjarstjórnar í  Árborg er einn þeirra. Hann talar um kvennakapal.

„Þetta er svona ráðherrakapall sem fer af stað. Ég var nú í Valhöll á mánudagskvöldið þar sem var verið að samþykkja ríkisstjórnina og þá fengum við ekkert að vita um ráðherrana en þetta er svona kvennakapall sem ég ætla ekki að hætta mér út í hér, þetta er viðkvæm umræða, en það er samt eðlilegt að spyrja sig til hvers er verið að halda hér prófkjör, leggja peninga og tíma í það að halda prófkjör ef að þau rúlla ekki hvað þetta snertir. Við hefðum átt að fá ráðherra og ég held að Bjarni muni nota fyrsta tækifæri til að láta okkur hafa ráðherra í næstu skiptum,“ segir Kjartan.

Unnur Þormóðsdóttir sem situr í bæjarstjórn Hveragerðisbæjar fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins var formaður kjörstjórnar fyrir prófkjör flokksins í haust í Suðurkjördæmi.

„Mér finnst freklega gengið framhjá okkur og mér finnst mjög einkennilegt að svæði, Suðurkjördæmi sem er eitt helsta vígi Sjálfstæðismanna skuli sitja hjá við úthlutun ráðherrasæta. Mér finnst landsbyggðahallinn vera mikill í vali ríkisstjórnar og ráðherrasætum og mér finnst bara verið að gefa landsbyggðinni fingurinn og mér finnst þetta bara vont mál.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×