Innlent

Sjálfstæðismenn vilja kalla Össur heim

Sigurður Kári Guðjónsson vill kalla Össur heim þar sem ekki sé pólitísk forysta fyrir umsókn landsins í Evrópusambandið.
Sigurður Kári Guðjónsson vill kalla Össur heim þar sem ekki sé pólitísk forysta fyrir umsókn landsins í Evrópusambandið.
Sjálfstæðismenn mótmæla veru Össurar Skarphéðinssonar á ríkjaráðstefnu Evrópusambandsins. Í bókun fulltrúa flokksins í utanríkismálanefnd Alþingis segja Sjálfstæðismenn það ljóst að einungis einn stjórnmálaflokkur á Íslandi sé einhuga um aðild landsins að sambandinu. Aðildarumsóknin sé andvana fædd.

„Að mati fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í utanríkismálanefnd Alþingis er aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu andvana fædd," segir í bókunni sem Sigurður Kári Kristjánsson og Ragnheiður Elín Árnadóttir skrifa undir.

Í bókuninni segir jafnframt að fyrir liggi þingsályktunartillaga sem mæli fyrir að aðildarumsóknin verði dregin til baka. Í ljósi andstöðu Vinstri Grænna við Evrópusambandið sé mikilvægt að þessi tillaga verði rædd á þingi og afgreidd áður en viðræður hefjist. Miðað við ástandið á þinginu í dag sé ekki ljóst hvort pólitísk forysta sé fyrir málinu á Íslandi.

„Í ljósi þess telja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins að þátttaka utanríkisráðherra Íslands á ríkjaráðstefnu Evrópusambandsins sé ekki tímabær og að frekari viðræður skuli ekki fara fram fyrr en ofangreind álitaefni hafa verið til lykta leidd," segir í bókuninni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×