Innlent

Sjúkraliðar og ælupokar í boði

Tom Six verður með spurt og svarað-sýningu í Háskólabíói í kvöld en þá verður kvikmynd hans, The Human Centipede 2, forsýnd.
Tom Six verður með spurt og svarað-sýningu í Háskólabíói í kvöld en þá verður kvikmynd hans, The Human Centipede 2, forsýnd.
Hollenski kvikmyndagerðamaðurinn Tom Six er væntanlegur hingað til lands í dag ásamt systur sinni en hann verður með spurt og svarað-sýningu í Háskólabíói í kvöld þegar kvikmynd hans, The Human Centipede 2, verður forsýnd.

Myndin er stranglega bönnuð innan átján ára og verða dyraverðir til taks á sýningunni. Þeir verða ekki eina varúðarráðstöfunin því Ísleifur B. Þórhallsson, sem hefur veg og vanda af komu Six hingað til lands, hefur þegar tryggt að þrjú hundruð ælupokar verði til taks. „Og svo verða alvöru sjúkraliðar með súrefni og börur á reiðum höndum ef einhverjum fer að líða verulega illa.“

Myndin er feikilega umdeild, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Breska kvikmyndaeftirlitið ákvað meðal annars að banna hana alfarið í Bretlandi og varð sú ákvörðun tilefni mikilla ritdeilna. Að endingu ákváðu bresk yfirvöld að hleypa henni í gegn. Myndin hefur fengið misjafna dóma en kvikmyndatímaritið Empire gaf henni meðal annars þrjár stjörnur og fína dóma og Entertainment Weekly gaf henni lofsamlega umsögn.

Ísleifur segir að Six og systir hans séu ákaflega viðkunnanlegt fólk sem hlakki mikið til heimsóknarinnar til Íslands. „Six er alveg hrikalega flughræddur og hann leggur ekkert á sig svona ferðalög nema hann sé mjög spenntur,“ segir Ísleifur en þau verða hérna yfir helgina og ætla sér að kíkja út á lífið.

„Og kannski kíkja á Kevin Smith,“ segir Ísleifur, en bandaríski kvikmyndaleikstjórinn verður með uppistand í Hörpunni á föstudagskvöld. -fgg



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×