Innlent

Skerða barna- og vaxtabætur um 600 milljónir

Samúel Karl Ólason skrifar
Með skerðingu vaxta- og barnabóta fást um 600 milljónir króna sem veita á til heilbrigðisþjónustu.
Með skerðingu vaxta- og barnabóta fást um 600 milljónir króna sem veita á til heilbrigðisþjónustu. Mynd/Stefán
Stjórnvöld hyggjast skerða hámarks barna- og vaxtabætur um 600 milljónir króna og þróunaraðstoð um hundruð milljóna. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir þetta gert til að unnt sé að veita meira fé til heilbrigðismála. Þetta kom fram í fréttum RÚV í dag.

„Í fjárlagafrumvarpinu hefur ekki verið gengið út frá skerðingu á vaxta- og barnabótum, en hins vegar er í umræðu í nefndinni að það komi til álita að lækka hámarks vaxta- og barnabætur til að skapa um 600 milljóna svigrúm fyrir forgang heilbrigðisþjónustunnar,“ sagði fjármálaráðherra.

Fjáraukafrumvarpið var tekið úr fjárlaganefnd í fyrradag og er tilbúið til annarrar umræðu. Nefndin ræddi fjárlagafrumvarpið á fundi í gærkvöldi og í dag. „Vonir standa til að hægt verði að taka fjárlagafrumvarpið sjálft úr nefnd snemma í vikunni og þá er það tilbúið til annarrar umræðu líka,“ segir Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar.

Fjárframlög til heilbrigðiskerfisins verða aukin um 3.500 milljónir króna og þar af fara 1.500 milljónir til tækjakaupa á Landspítalanum og Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Á móti þessari framlagsaukningu segir fréttastofa RÚV að líklegt sé að fjárveitingar til Ríkisútvarpsins verði skertar um 215 milljónir til viðbótar og að verið sé að skoða rekstur ráðuneyta. Boðaðar hafa verið meiriháttar breytingar á fjárlagafrumvarpinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×