Innlent

Skíðasvæði víða opin yfir hátíðarnar

Í bláfjöllum Fréttablaðið birtir í dag kort yfir helstu skíðasvæði landsins og opnunartíma þeirra yfir hátíðarnar. Fréttablaðið/Anton
Í bláfjöllum Fréttablaðið birtir í dag kort yfir helstu skíðasvæði landsins og opnunartíma þeirra yfir hátíðarnar. Fréttablaðið/Anton
Öll helstu skíðasvæði landsins eru opin vikuna fyrir jól, nema í Oddskarði og Skálafelli. Alls staðar er einhver opnun yfir hátíðarnar, en mismikil þó.

Hvað höfuðborgarsvæðið varðar þá er opið í Bláfjöllum og ágætisfæri þótt þar hafi undanfarna daga þurft að loka svæðum vegna hvassviðris. Ekki er enn búið að opna í Skálafelli, en ákveðið hefur verið að hafa þar opið um helgar frá og með 1. febrúar og fram yfir páska. „Nú aukast líkurnar talsvert á að hægt sé að skella sér í fjöllin um helgar þar sem stundum er hægt að vera með opið í Bláfjöllum en ekki Skálafelli vegna veðurs, og öfugt,“ segir á vef Skíðasvæðis höfuðborgarsvæðisins.

Einna mest opnun yfir hátíðarnar er svo í Hlíðarfjalli á Akureyri þar sem bara er lokað á aðfangadag og jóladag, en opið alla aðra daga fram á nýárið. Í Oddskarði er aftur lokað fram að öðrum í jólum og verður þá opið til 30. desember. Lokað er á gamlaárs- og nýársdag en annan janúar hefst venjuleg opnun.

Skíðasvæðið í Skarðsdal á Siglufirði verður opið bæði á Þorláksmessu og aðfangadag, sem og á gamlársdag. Þar hefur verið opið, fyrir utan lokanir vegna veðurs fyrripart vikunnar.

Skíðasvæðið í Tindastóli á Sauðárkróki var opnað í gær, fimmtudag, og verður opið fram á Þorláksmessu, þegar er hátíðaropnun, að því er fram kemur á vef skíðasvæðisins.

Í Böggvisstaðafjalli á Dalvík er lokað á hátíðisdögum, en opið vikuna milli jóla og nýárs. Síðan verður opnað aftur strax annan janúar og „opið daglega meðan veður leyfir“, samkvæmt upplýsingum frá umsjónarmanni skíðasvæðisins. olikr@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×