Innlent

Skilríkjalaus í gæsluvarðhaldi

Stefán Vagn Stefánsson segir að manninum verði vísað brott hafi hann komið ólöglega inn í landið.
Stefán Vagn Stefánsson segir að manninum verði vísað brott hafi hann komið ólöglega inn í landið.
Erlendur maður, sem verið hefur í haldi lögreglunnar á Sauðárkróki, hefur verið úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald. Hann sætir nú gæslu í fangelsinu á Akureyri. Umræddur maður er grunaður um að hafa komið ólöglega inn í landið.

Lögreglan rakst á hann, þar sem hann var á vettvangi, þegar hún var að sinna útkalli. Hann reyndist vera skilríkjalaus og var því handtekinn og færður á lögreglustöð. Þar kom í ljós að hann gat ekki framvísað vegabréfi.

Að sögn Stefáns Vagns Stefánssonar, yfirlögregluþjóns á Sauðárkróki, hefur maðurinn sagst vera frá Nígeríu. Talið er að hann hafi komið hingað um mánaðamótin apríl-maí. Lögreglan á Sauðárkróki vinnur að því að finna deili á honum og athuga hvaðan hann kom, í samráði við alþjóðadeild ríkislögreglustjóra. Ýmsar vísbendingar eru uppi í málinu, að sögn Stefáns Vagns, en eftir er að sannreyna þær.

Verði það staðfest að maðurinn hafi komið ólöglega inn í landið verður honum vísað til þess lands sem hann kom frá, að sögn Stefáns Vagns.

- jss



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×