Lífið

Skilur eftir ókeypis öryggi fyrir nágrannana um hátíðarnar

Bjarki Ármannsson skrifar
Árni segir grönnunum að koma bara og taka öryggi sér að kostnaðarlausu ef þau þurfa á þeim að halda yfir hátíðarnar.
Árni segir grönnunum að koma bara og taka öryggi sér að kostnaðarlausu ef þau þurfa á þeim að halda yfir hátíðarnar. Myndir/Árni Pétursson
„Ég er nú bara rafvirki og hef oft lent í því að fólk hringi hingað um hátíðarnar í vandræðum. Þess vegna datt mér í hug að gera þetta,“ segir Árni Pétursson, sem hefur komið fyrir plastkassa fyrir framan útidyrahurð sína á Bollagörðum á Seltjarnarnesi með flestum gerðum af öryggjum.

Árni lét nágranna sína vita af þessu í Facebook-hóp fyrir íbúa á Seltjarnarnesi og segir þeim að koma bara og taka öryggi sér að kostnaðarlausu ef þau þurfa á þeim að halda yfir hátíðarnar.

„Vonandi fer sem minnst af þessu, fólksins vegna,“ segir Árni og hlær. Þetta er í fyrsta sinn sem hann setur út kassa fyrir jólin en hann hefur undanfarin ár skreytt ljósastaura í botnlanganum þar sem hann býr fyrir hátíðarnar.

Nágrannar Árna hrósa honum fyrir uppátækið í athugasemdum á Facebook en hann segir það koma sér á óvart hversu margir hafa tjáð sig um þetta.

„Það er allavega jákvætt skrifað, það mætti vera meira af því,“ segir hann.

Jólin koma víst ekki fyrr en Árni hefur skreytt staurana í botnlanganum.Mynd/Árni Pétursson





Fleiri fréttir

Sjá meira


×