Innlent

Skipulagðir glæpahópar sagðir markvisst að vopnbúast

Andri Ólafsson skrifar

Um helgina réðust tveir menn inn á heimili í Grafarvogi, bundu húsráðanda og kefluðu. Tilgangurinn var að komast í byssuskáp sem mennirnir vissu af á heimilinu og ræna þaðan rifflum og haglabyssum. Lögreglan handtók mennina og í gær voru þeir úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Byssurnar, sem eru átta talsins, voru haldlagðar og þær eru nú í rannsókn.

En þetta eru ekki einu byssurnar sem lögreglan hefur haldlagt hjá glæpamönnum síðustu ár. Langt því frá. Samkvæmt gögnum sem fréttastofan lét lögregluna taka saman í dag hefur hún haldlagt 463 skotvopn í 223 málum frá árinu 2007. Bara á árinu 2011 voru 107 skotvopn haldlögð.

Lögreglumenn telja þetta til marks um það að skipulagðir glæpahópar séu markvisst að vopnbúast.

Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna: "Varðandi þessar tölur sem þarna birtast þær vekja augljóslega hjá manni ákveðinn ugg og þar er alveg hreint með ólíkindum að lögregla sé haldlegga þetta magn af skotvopnum. Og við höfum ekkert til að bregðast við þessu nema skotheld vesti, kylfur og piparúða."

Lögreglumenn hafa lengi talað fyrir því að þeir fái búnað, rafbyssur og fleira, til að bregaðst við þessar þróun.

En telja lögreglumenn að með nýjum ráðherra lögreglumála verði stefnubreyting í þessum málum?

"Nú verðum við að bíða og sjá. Ég hef ekkert heyrt í ráðuneytinu eftir að nýr ráðherra kom til starfa og bíð því spenntur eftir því að sjá hvað hún hefur fram að færa í þessum málum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×