Innlent

Skönnun Alþingistíðinda langt fram úr áætlun

Sveinn Arnarsson skrifar
Verið er að skanna inn Alþingistíðindi. Kostnaður hleypur á hundruðum milljóna
Verið er að skanna inn Alþingistíðindi. Kostnaður hleypur á hundruðum milljóna
Kostnaður við skönnun Alþingistíðinda frá upphafi hefur farið langt fram úr upphaflegum áætlunum. Kostnaður við verkið stendur nú í tæplega tvö hundruð milljónum króna og er hvergi nærri lokið.

183 milljónum varið nú þegar

Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, segir mikla vinnu eftir enn þá við að klippa niður skjöl og stilla þeim upp þannig að þau séu hæf til birtingar á vefnum. „Inn á vefinn er nú allt komið á lýðveldistíma, frá 1944, og verið er að setja inn þingin 1939-1944. Eldra efni er svo í frekari vinnslu, yfirlestri og klippingu.“

Vinnan hefur farið fram á tveimur stöðum á landinu, á Hvammstanga og í Ólafsfirði. Enn eru tveir starfsmenn í vinnu við verkefnið í Ólafsfirði en starfsemi á Hvammstanga er lokið. Kostnaðurinn við Ólafsfjarðarverkefnið eitt og sér er nú komið í 183 milljónir króna og ekki sér fyrir endann á verkefninu. Starfsemin á Hvammstanga fól í sér að setja upp efnisyfirlit allra Alþingistíðinda frá upphafi. Starfsemin í Ólafsfirði snýr hins vegar beint að skönnun og uppsetningu skjalanna.

„Starfsmenn í Ólafsfirði eru nú tveir en voru fimm þegar mest var. Hluti tæknivinnslunnar er nú kominn inn á skrifstofu þingsins í Reykjavík,“ segir Helgi.

Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis
Átti að vera þriggja ára verkefni

Halldór Blöndal, þáverandi forseti Alþingis, sagði á sínum tíma að um væri að ræða stórt verkefni og áætlað væri að um níu ársverk tæki að skanna inn öll Alþingistíðindi og birta á vefnum. Árið 2002 var hafist handa við verkið og voru þrír starfsmenn ráðnir. Átti þetta því að taka um þrjú ár í vinnslu. Nú, 12 árum síðar, vantar enn um 100 ár af Alþingistíðindum og ekki sér fyrir endann á verkinu. Helgi telur menn ekki hafa séð fyrir hversu umfangsmikið þetta verk væri. „Menn hafa greinilega vanáætlað verkið gríðarlega. Um viðamikið verk er að ræða.“

Halldór Blöndal segir verkefnið á sínum tíma einnig hafa verið lið í því að flytja störf út á land og gera fleirum kleift að vinna opinber störf óháð búsetu. 

„Það er búið að skanna allt, öll þingtíðindin. Hins vegar er mikil vinna eftir við að klippa niður skjöl, bæði þingskjöl og einstakar ræður, stilla þessu upp og koma því inn á vefinn. Við höfum lagt mikla áherslu á gera vefinn okkar sem allra bestan og þetta verkefni er hluti af því, að eldri þingtíðindi séu aðgengileg, bæði þingmönnum og öllum almenningi “ segir Helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×