Innlent

Skotmenn voru með óeirðakylfu

Lagði hald á bíl skotmannanna.
Lagði hald á bíl skotmannanna.
Bíll mannanna, sem stóðu að skotárás á bifreið í austurborginni síðastliðið föstudagskvöld er nú kominn í hendur lögreglunar á höfuðborgarsvæðinu. Lagt var hald á hann og við leit fannst í honum stór kylfa, ekki ósvipuð óeirðakylfum. Haglabyssan sem notuð var við árásina er hins vegar ófundin.

Mikil mildi þykir að ekki skyldi fara verr en raun bar vitni þegar skotið var á bifreiðina, sem í voru bílstjóri auk fleira fólks. Afturrúða í bílnum splundraðist við kúlnahríðina en talið er að tveimur skotum hafi verið hleypt af.

Tveir karlmenn á þrítugsaldri sitja í gæsluvarðhaldi í tengslum við málið. Annar þeirra er talinn hafa staðið á bak við árásina.

Þriðji maðurinn var jafnframt handtekinn í fyrradag, eins og Fréttablaðið greindi frá í gær. Hann er innan við tvítugt og hefur nýlega hlotið dóm fyrir hlutdeild í ofbeldismáli, sem kennt er við Black Pistons. Piltinum var sleppt úr haldi eftir yfirheyrslur, þar sem lögregla taldi ekki ástæðu til að halda honum lengur.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir rannsókninni á skotárásinni í austurborginni miða ágætlega. - jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×