Innlent

Skrítið að vera með grímu

„Fólk er hrætt,“ segir Steinar Orri Hafsteinsson, skiptinemi í Mexíkó.
„Fólk er hrætt,“ segir Steinar Orri Hafsteinsson, skiptinemi í Mexíkó.

Fjölmargir hafa sett sig í samband við landlæknisembættið til að kanna hvort óhætt og heimilt sé að fara til Mexíkó og hvort og þá hvernig eigi að bregðast við svínainflúensunni sem geisar þar. Ekki hefur verið gripið til ferðatakmarkana en heilbrigðisyfirvöld fylgjast náið með þróuninni.

Íslendingar eiga flensulyfin Tamiflu og Relenza fyrir þriðjung þjóðarinnar.

Steinar Orri Hafsteinsson hefur verið skiptinemi í Mexíkó í vetur. Hann var á ferðalagi um síðustu helgi og segir að allir skiptinemarnir og helmingur Mexíkóabúanna hafi verið með öndunargrímur. Skiptinemunum var sagt frá svínainflúensunni fyrir fjórum dögum og þá fylgdi sögunni að inflúensubakterían gæti ekki lifað í miklum hita. „En svo sá ég að grunur léki á að tuttugu væru með svínainflúensuna hér í Veracruz þannig að það er ekkert að marka þetta með hitann," segir hann.

Steinar Orri fór ekki í skólann í gær, bæði vegna inflúensunnar og vegna þess að hann kom svo seint heim úr ferðalaginu á sunnudagskvöldið. Hann segir þó að skólinn sinn hafi verið opinn. Foreldrar hafi beðið börnin að vera með grímur en margir vilji það ekki. „Fólk er hrætt en sumir taka ekkert mark á þessu og telja að það gangi hratt yfir." Honum finnst skrítið að ganga með öndunargrímu.

Haraldur Briem sóttvarnalæknir segir að fylgst sé náið með þróun inflúensunnar í samstarfi við Alþjóða heilbrigðisstofnunina og Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins. Ekki sé fyllilega ljóst hvort heimsfaraldur muni verða eða ekki. - ghs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×