Viðskipti innlent

Skuldirnar vegna kaupa á Símanum að sliga Skipti

Fjármagnskostnaður Skipta, móðurfélags Símans, Mílu og Skjás miðla, skerðir samkeppnishæfni og fjárfestingagetu félagsins. Forstjóri þess segir þetta ekki ganga upp til lengri tíma og að endurfjármögnun félagsins sé „mjög aðkallandi".

Kostnaðurinn er tilkominn vegna sambankaláns sem tekið var þegar Skipti keyptu Símann í einkavæðingarferli árið 2005 og útistandandi skuldabréfaflokks. Sambankalánið, sem stendur í um fjörutíu milljörðum króna, er á gjalddaga í desember 2013 og skuldabréfaflokkurinn, upp á 22 milljarða króna, á að greiðast í apríl 2014. Þangað til greiðir félagið vexti af þessum skuldum.

Skipti birtu hálfsársuppgjör sitt í gær. Rekstrarhagnaður félagsins nam 3,4 milljörðum króna. Á móti var fjármagnskostnaður þrír milljarðar og virðisrýrnun eigna 1,3 milljarðar. Þessir tveir þættir voru ráðandi í því að félagið tapaði 2,6 milljörðum á fyrstu sex mánuðum ársins, sem er um 700 milljónum meira en tapið á sama tíma í fyrra.

Steinn Logi Björnsson, forstjóri Skipta, segir ljóst að það þurfi að endurfjármagna félagið enda sé afkoma Skiptasamstæðunnar óviðunandi vegna alltof hárrar skuldastöðu og fjármagnskostnaði sem henni fylgir.

„Fjármagnsstrúktúrinn eins og hann er núna gengur ekki til lengri tíma," segir hann. „Það er því orðið mjög aðkallandi að ráðast í endurfjármögnun og undirbúningur fyrir hana er hafinn. Það kemur í ljós á næstu mánuðum hvernig til tekst."

Aðspurður hvort nægjanlegt sé að endurfjármagna skuldir segir Steinn það fræðilega vera hægt. „Það er þó auðvitað aldrei ákjósanlegt til lengri tíma. Skuldastaðan hefur áhrif á samkeppnishæfni okkar og við getum ekki fjárfest eins og við þurfum."

Eigandi Skipta er Klakki ehf., sem áður hét Exista. Stærsti eigandi þess félags er Arion banki með 44,9 prósent hlut. Þrír erlendir vogunarsjóðir eiga auk þess samtals 17,5 prósent í Klakka. - þsj





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×