Innlent

Skynsamleg stefnumörkun á landsbyggðinni, segir fjármálaráðherra

Steingrímur Sigfússon.
Steingrímur Sigfússon.
Mótmælin halda áfram að hellast inn af landsbyggðinni vegna niðurskurðar á sjúkrahússþjónustu. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra varði niðurskurðinn í fjárlagaræðu sinni í gær með því að nauðsynlegt væri að bæta nýtingu opinberra fjármuna og að sú faglega stefnumörkun heilbrigðisyfirvalda, sem með þessu væri boðuð, væri á margan hátt skynsamleg.

Það er ekki bara á Húsavík sem borgarafundur verður haldinn á morgun. Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur boðað til borgarafundar á Ísafirði annaðkvöld undir yfirskriftinni "Aðför að vestfirskum byggðum" en fullyrt er að sjúkrahússtarfsemi muni leggjast af á Vestfjörðum með niðurskurðinum. Á Suðurnesjum hefur verið boðað til þögullar mótmælastöðu annaðkvöld í skrúðgarðinum í Reykjanesbæ. Samband sveitarfélaga á Austurlandi segir áformin ekkert annað en aðför að heilbrigðisþjónustu þar og bæjarráð Vestmannaeyja fordæmir þá aðferðafræði að skera niður nærþjónustu á landsbyggðinni.

Fjármálaráðherrann, Steingrímur J. Sigfússon, viðurkenndi í fjárlagaræðu sinni í gær að þetta væru mjög þungbærar ráðstafanir og að vega yrði og meta hversu raunsætt væri að þær gengju fram og með hvaða hraða. Hann varði þó þessa stefnumörkun með því að afar dýrt væri að veita sérhæfða læknisþjónustu með aðfluttum sérfræðingum á þessum stofnunum.

"Ég vil þó láta það sjónarmið mitt koma fram að ég tel að sú faglega stefnumótun heilbrigðisyfirvalda sem þar er boðuð sé á margan hátt skynsamleg," sagði Steingrímur.

"Við Íslendingar verðum að horfast í augu við það að við þurfum að endurskipuleggja þessa starfsemi og reyna að gera hana eins skilvirka og bæta þar nýtingu fjármuna eins og nokkur kostur er og nýta til þess meðal annars bættar samgöngur og nýja tækni af ýmsum toga sem með okkur leggst.

Ég held að það sé skynsamleg áhersla að efla heilsugæsluna og nærheilbrigðisþjónustuna, hjúkrunarstarfsemi og aðra slíka hluti en í staðinn verðum við að sætta okkur við að í einhverjum mæli færist sérhæfðasta og dýrasta þjónustan á færri staði," sagði fjármálaráðherra á Alþingi í gær.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×