Innlent

Sláturtíðin hafin -farandverkamenn streyma til Húsavíkur

Sigríður Mogensen skrifar

Farandverkamenn hvaðanæva að streymdu til Húsavíkur að vinna í sláturtíðinni sem stendur nú sem hæst. Þeir eru allt frá unglingum í ævintýraeit upp í þaulvana slátrara á sextugsaldri og setur litríkur hópurinn svip sinn á bæinn.

Alls fjölgar starfsmönnum hjá Norðlenska á Húsavík um 80-90 í sauðfjársláturtíðinni, sem stendur yfir í tvo mánuði á ári og er nú í fullum gangi. Í ár eru í hópnum allt frá sautján ára unglingum í ævintýraleit og upp í lærða slátrara á sextugsaldri og kemur fólkið meðal annars frá Svíþjóð, Póllandi, Lettlandi og Bretlandi.

„Mikið af þessu fólki er að koma í annað og þriðja og allt upp í áttunda árið, þannig að þeim finnst eins og þeir séu að koma heim," segir Sigmundur Hreiðarsson, vinnslustjóri hjá Norðlenska.

Spurður hvernig það hafi gengið að fá Íslendinga í þessi störf svarar Sigmundur: „það hefur ekki gengið vel, það verður bara að segjast eins og er. Við höfum töluvert leitað, en það hefur bara ekki gengið vel."

Sigmundur segist ekki finna fyrir miklum áhuga atvinnulausra á vinnunni?

„Nei við finnum ekki fyrir því og við höfum svo sem sagt það áður, ef það er blautt og kalt þá eru Íslendingar ekkert spenntir," segir Sigmundur.

„Við viljum meina það að þetta fólk skilji eftir sig töluvert í bænum. Við erum í góðu samstarfi við hótelið og leigjum af þeim heila hæð og það lengir tímabilið hjá þeim. Og þetta fólk þarf að lifa og það nýtir sér verslanir og að sjálfsögðu pöbbana þannig að það skilur töluvert eftir í bænum, og meira líf sem ekki veitir af," segir Sigmundur.

Boðaður niðurskurður í heilbrigðisþjónustu hvílir þungt á Húsavík eins og mörgum öðrum sveitarfélögum þessa dagana.

„Það er mikil hætta á að fólk geti slasað sig ef ekki er farið varlega. Og það hafa orðið slys, hvert á ég að fara með fólkið? Ef ég get ekki farið með það á næsta sjúkrahús það getur kostað mannslíf, það er ekkert flókið," segir Sigmundur sem er uggandi yfir niðurskurðartillögum ríkisstjórnarinnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×