Viðskipti innlent

Slitastjórn athugar hugsanleg brot vegna lána til Björgólfs Thors

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Lögmennirnir Kristinn Bjarnason, (t.v) og Herdís Hallmarsdóttir, (t.h) eru bæði í slitastjórn Landsbankans.
Lögmennirnir Kristinn Bjarnason, (t.v) og Herdís Hallmarsdóttir, (t.h) eru bæði í slitastjórn Landsbankans.

Slitastjórn Landsbankans rannsakar nú hvort bankinn hafi hugsanlega brotið reglur um áhættuskuldbindingar með lánveitingum til Björgólfs Thors Björgólfssonar.

Eins og fréttastofa greindi frá í gærkvöldi hyggst Ólafur Kristinsson, lögmaður og fyrrverandi hluthafi í Landsbankanum höfða mál gegn Björgólfi Thor Björgólfssyni vegna villandi upplýsingagjafar um eignarhald sitt í bankanum. Fréttastofa hefur fjallað um það ítarlega að undanförnu að 5 prósenta eignarhlutur í félaginu Givenshire Equities, sem var móðurfélag Samsonar, hafi verið í eigu starfsmanna Novators, en Ólafur telur að umræddur eignarhlutur hafi verið undir stjórn Björgólfs Thors og þannig hafi eign hans í bankanum farið yfir 20 prósent. Hann hafi því ranglega ekki verið flokkaður sem venslaður aðili með Landsbankanum, en ef hann hefði verið flokkaður réttilega sem venslaður aðili með bankanum hefði það takmarkað mjög lánveitingar til hans og minnkað áhættu vegna fjárfestingar í Landsbankanum, að mati Ólafs.

Ragnhildur Sverrisdóttir, talsmaður Björgólfs Thors, hefur hins vegar hafnað þessum ásökunum Ólafs. Alltaf hafi verið réttilega staðið að upplýsingagjöf um eignarhald Björgólfs Thors í Landsbankanum.

Viðskiptablaðið greinir frá því í dag að nú sé slitastjórn Landsbankans með til skoðunar hvort áhættuskuldbindingar Landsbankans til Björgólfs Thors hafi verið langt yfir leyfilegum mörkum, þ.e hvort bankinn hafi lánað Björgólfi Thor og tengdum aðilum meira fé en lög og reglur heimiluðu. Fréttastofa Stöðvar 2 og Vísis hefur undir höndum bréf frá Fjármálaeftirlitinu til Landsbankans frá mars 2007 þar sem FME greinir bankanum frá því að skilgreining bankans og meðferð á fjárhagslega tengdum aðilum, samkvæmt reglum um stórar áhættuskuldbindingar, sé ábótavant. Þá taldi FME að áhættuskuldbinding gagnvart Björgólfi Thor, að því er fram kemur í viðhengi um útlánaáhættu sem fylgdi með bréfinu, hafi verið langt yfir lögmæltu hámarki. Í þessu samhengi ber hins vegar að geta þess að ágreiningur var milli Landsbankans og FME um þetta atriði, en Landsbankinn taldi að ekki ætti að flokka útlán bankans til Actavis með lánum til Björgólfs Thors og tengdra aðila, en FME taldi að flokka ætti Actavis með öðrum félögum Björgólfs Thors og þannig hafi áhættuskuldbindingar vegna lána til hans verið yfir leyfilegum mörkum.










Tengdar fréttir

Vill fá fyrrverandi hluthafa með í hópmálssókn gegn Björgólfi Thor

Fyrrverandi hluthafi í Landsbankanum hyggst höfða mál gegn Björgólfi Thor Björgólfssyni en hann telur að Björgólfur Thor hafi blekkt yfirvöld og fjárfesta með rangri upplýsingagjöf um eignarhald sitt á bankanum. Hann hvetur aðra fjárfesta til að hafa samband við sig til að fara í hópmálssókn.

Björgólfur Thor gerir athugasemd við fréttaflutning

Björgólfur Thor Björgólfsson, fjárfestir, gerir athugasemdir við frétt Vísis frá því í gær um eignarhald hans á Landsbankanum og félagið Givenshire Equities sem skráð er á Kýpur. Fréttastofan stendur við fréttina. Hins vegar skal tekið fram að í útgáfu á fréttinni sem birtist á Vísi urðu þau mistök að orðið „tengdra aðila“ vantaði þegar vísað var til lánveitinga til Björgólfs Thors upp úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×