Viðskipti innlent

Slitastjórnir mala gull eftir hrunið

Mynd/Fréttablaðið
Slitastjórnir föllnu bankanna þriggja mala gull eftir bankahrunið, en sumar lögmannsstofur í eigu nefndarmanna í slitastjórnum skiluðu tugmilljóna króna hagnaði á síðasta ári.

Í slitastjórn Kaupþings sitja nú þau Feldís Lilja Óskarsdóttir og Davíð Benedikt Gíslason, eftir að Ólafur Garðarsson, lét af störfum.

Lögmannstofa Feldísar Lilju hagnaðist um 6,8 milljónir króna í fyrra samkvæmt ársreikningi. Félag Davíðs hefur ekki skilað ársreikningi fyrir árið 2010.

Fyrirtæki utan um rekstur Steinars Þórs Guðgeirssonar, sem er formaður skilanefndar Kaupþings, skilaði rúmlega fimmtíu milljóna króna hagnaði á síðasta ári og er félagið skráð með eignir upp á tæplega hundrað milljónir króna, en hann þess skal getið að hann rekur félagið ásamt eiginkonu sinni sem einnig er lögmaður og inni í fjárhæðinni eru því einnig hagnaður vegna tekna hennar.

Félag Jóhannesar Rúnars Jóhannssonar, sem einnig er í skilanefnd Kaupþings, skilaði tæplega 8,6 milljóna króna hagnaði.

Skilanefndir bankanna verða lagðar niður frá og með áramótum þegar þær sameinast slitastjórnum í samræmi við breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki.

Embla lögmenn ehf., lögmannsstofa Herdísar Hallmarsdóttur, sem situr í slitastjórn Landsbankans, skilaði tæplega 23 milljóna króna hagnaði, en hún rekur stofuna ásamt Ingibjörgu Björnsdóttur.

Lögmannsstofa Kristins Bjarnasonar , KB lögmannsstofa ehf., hefur ekki skilað ársreikningi fyrir árið 2010. Félag í eigu Halldórs Backman, sem einnig er í slitastjórn Landsbankans, hefur heldur ekki skilað inn ársreikningi, en lögmannstofur beggja skiluðu hvorar um sig meira en 50 milljóna króna hagnaði árið 2009.

Félag utan um rekstur Lárentsínusar Kristjánssonar, formanns skilanefndar Landsbankans, hefur ekki skilað ársreikningi en hagnaðist um tæplega 40 milljónir króna árið 2009. Félag Ársæls Hafsteinssonar, sem er með honum í skilanefnd bankanks, hagnaði um 35 milljónir en 56 milljónir árið á udan.

Ókrýnd drottning slitastjórna föllnu bankanna sé miðað við tekjur er tvímælalaust Steinunn Guðbjartsdóttir, sem er yfir slitastjórn Glitnis en lögmannsstofa hennar hagnaðist um rúmlega 68 milljónir króna í fyrra. Þar á undan hagnaðist stofan um 52 milljónir og rúmlega 20 milljónir árið 2008.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×