Innlent

Slökkti í logandi fötum mömmu sinnar

GS skrifar
Sautján ára piltur sýndi mikið snarræði og hugrekki þegar hann kom móður sinni til bjargar og náði að slökkva í logandi fötum hennar áður en hún brenndist enn meir en raunin varð. Lögregla telur að hann hafi jafnvel bjargað lífi hennar.

Þetta gerðist á efri hæð í raðhúsi við Fagrahjalla um kvöldmatarleitið í gærkvöldi. Konan var að kveikja upp í svonefndum etanol arni, sem nú eru að ryðja sér til rúms, en eldsneytið er 96 prósenta sterkt etanol, eða vínandi. Sprenging varð þegar konan kveikti á eldfæri og læsti eldur sig í húsgögn og fatnað konunnar á augabragði.

Pilturinn sá að hverju fór, greip teppi og náði að kæfa eldinn í fötum móður sinnar, hringja á slökkvilið  og hjálpa henni út úr brennandi húsinu. Hún var þegar flutt á slysadeild og slökkviliðið réði niðurlögum eldsins á skömmum tíma. Eftir fyrstu hjálp á slysadeild var konan flutt á brunadeild Landsspítalans og mun dvelja þar eitthavð áfram. Mikið tjón varð innanstokks í húsinu, bæði af eldi og reyk.

Etanol ofnar hafa rutt sér til rúms á heimilum og brýnir lögregla fyrir fólki að far að einu og öllu eftir leiðbeiningum um notkun þeirra. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×