„Við erum á köldu svæði og hér eru ekki stórir virkjanakostir,“ segir hann. „Þó að hér sé að vísu heitt vatn er það ekki í nægjanlegu magni og það er ljóst að orkukostnaður fyrir heimili og fyrirtæki mun hækka á næstu árum. Þess vegna spurðum við okkur hvað hægt væri að gera í málunum, sérstaklega litið til framtíðar, og höfum ákveðið að skoða nánar og fóstra betur hugmyndir um smávirkjanir.“

Aðspurður segir Hjalti þó að þessi verkefni muni ekki verða til þess að gera sveitarfélagið sjálfbært um orku þar sem notkun svæðisins sé á bilinu 20 til 30 megavött.
„Með þessar smávirkjanir erum við að horfa á stærð sem er kannski um eitt megavatt. Það yrði þá fyrst og fremst gott fyrir byggðina í nágrenni virkjunarinnar og síðan yrði afgangurinn seldur inn á kerfið.“
Hjalti bætir því við að margir fleiri kostir séu í skoðun og ýmislegt hafi komið fram á ráðstefnu um orkumál, sem bærinn stóð fyrir síðasta vetur. Meðal annars standi nú yfir prófanir með sjávarhverfil til virkjunar raforku úr sjávarföllum í Mikleyjaráli skammt frá Höfn.
„Í þessum málum verðum við að horfa til langs tíma, næstu tíu eða tuttugu ára, og það erum við einmitt að gera.“

Smávirkjanir eru allnokkrar á Íslandi og framleiða alls 131 gígavattsstund af rafmagni. Það er þó einungis brot af heildarframleiðslu hér á landi, sem er 17.548 gígavattsstundir. Mikilvægi virkjananna er þó meira en sem því nemur, að sögn Kristins Einarssonar, yfirverkefnisstjóra auðlindanýtingar hjá Orkustofnun; bæði fyrir raforkukerfið sjálft og fyrir búsetu í landinu.
„Smávirkjanir leggja kannski ekki mikið inn í kerfið ef á heildina er litið, en þær geta verið mikilvægar á ákveðnum stöðum," segir hann.
„Til að mynda virkjunin í Kolku í Skagafirði, sem var tengd við kerfi RARIK, en staðsetning hennar gerði óþarft að byggja nýja línu til Siglufjarðar. Þá er virkjun í Hvestu í Arnarfirði sem er afar mikilvæg fyrir sunnanverða Vestfirði. Auk þess geta smávirkjanir líka dregið úr kostnaði fyrir bændur, jafnvel skapað þeim tekjur ef þeir framleiða inn á kerfið, og það getur jafnvel riðið baggamuninn með búsetu á bænum líkt og hver önnur hliðarbúgrein.“