Innlent

Sökuð um ólöglega hundaræktun á Akranesi

Valur Grettisson skrifar
Margrét Tómasdóttir með verðlaunahund.
Margrét Tómasdóttir með verðlaunahund.

„Hann er algjörlega geðveikur þessi hundaeftirlitsmaður. Hann leggur mann í einelti," segir Margrét Tómasdóttir, formaður hundaræktunarfélagsins Íshunda, en hún gerði athugasemdir við störf hundaeftirlitsmanns á Akranesi á dögunum.

Málið var tekið fyrir á fundi framkvæmdaráðs bæjarins en þar er Margrét sökuð um að hafa ekki tilskilin leyfi fyrir hundaræktuninni samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðiseftirliti Vesturlands.

Framkvæmdaráð vitnar í lögregluskýrslur um málið og óskar svo eftir því við Heilbrigðiseftirlit Vesturlands um að gripið verði tafarlaust til viðeigandi aðgerða vegna meints brots á reglum um hundaræktun.

„Það þarf ekki leyfi fyrr en maður er kominn með sex tíkur," segir Margrét sem fullyrðir að hún hafi leyfi til þess að stunda þá hundaræktun sem hún stundi. Hún eigi fjórar tíkur, ein þeirra sé þó í umsjón vinar hennar en stefnt er á að hann fái forræði yfir henni.

Margrét segir enga stofnun né lögreglu hafa haft afskipti af sér vegna hundaræktunarinnar utan hundaeftirlitsmanninn sem hún vill meina að sæki óeðlilega fast að henni.

Hún sakar hann um að liggja á gluggum heima hjá sér og reyni að hlera það sem gerist inn í húsinu. Margrét segir í viðtali við Vísi að hún hafi áður þurft að kvarta undan hundaeftirlitsmanninum, þá hafi ástandið stórbatnað.

Aðspurð hversvegna framkvæmdaráð bregðist svona hart við svarar Margrét: „Ég hef ekki hugmynd um það."

Margrét segist ekki alls óvön því sem hún vill kalla ofsóknir en foreldrar hennar reka hundaræktun á Dalsmynni. Sú hundaræktun varð gríðarlega umdeild á sínum tíma.

Húsfreyjunni á Dalsmynni, Ástu Sigurðardóttur, fannst svo illa að sér vegið að hún höfðaði meiðyrðamál á hendur nafngreindum aðilum á heimasíðunni Hundaspjall.is. Hún sigraði í héraðsdómi en fjögur ummæli af sjö voru dæmd ómerk.

Það er umhverfisstofnun sem fer með eftirlit með hundaræktun.

Heilbrigðiseftirlit Vesturlands gat ekki tjáð sig um fundargerðina að sinni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×