Innlent

Sólkross seldist upp í Þýskalandi

Sólkross eftir Óttar M. Norðfjörð hefur selst í á annan tug þúsunda eintaka í Þýskalandi, Austurríki og Sviss.
Sólkross eftir Óttar M. Norðfjörð hefur selst í á annan tug þúsunda eintaka í Þýskalandi, Austurríki og Sviss.
„Ég vona að hún fari í einhverja tugi þúsunda. Það væri dásamlegt,“ segir Tómas Hermannsson hjá Sögum útgáfu.

Fyrsta upplagið af bók skjólstæðings hans, Óttars M. Norðfjörð, Sólkross, er uppselt í Þýskalandi og fór hún strax í endurprentun. Bókin hefur selst í vel á annað tug þúsunda eintaka í Þýskalandi, Austurríki og Sviss síðan hún kom út í júlí. Hér heima kom hún út árið 2008. „Það er meðbyr með íslenskum höfundum í Þýskalandi. Íslenskir höfundar fengu rosalega mikla kynningu á bókamessunni og ég held að fullt af íslenskum höfundum sé að græða á þessu,“ segir Tómas.

Í nýjasta tímariti Thaliu, stærstu bókakeðju hins þýskumælandi heims, er umfjöllun um Sólkross sem klykkir út með: „…höfundurinn ungi sannar enn á ný að hann er einn besti glæpasagnahöfundur lands síns“.

Spænska forlagið Duomo Ediciones ætlar að gefa út aðra bók eftir Óttar, Hníf Abrahams, á næsta ári. Sama forlag gaf út Sólkross á Spáni og í Suður-Ameríku í vor. Einnig stendur til að þýða Sólkross yfir á ítölsku og Áttablaðarósina, spennusögu Óttars frá því í fyrra, yfir á sænsku.

Franska bókaumboðsskrifstofan The Parisian Agency skrifaði jafnframt nýverið undir samning við Óttar og mun hún annast mál hans á erlendri grundu.- fb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×