Innlent

Sonurinn handleggsbrotinn og enginn tók eftir

Atvikið átti sér stað á leikskóla í Hafnarfirði. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Atvikið átti sér stað á leikskóla í Hafnarfirði. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Móðir í Hafnarfirði hefur farið fram á að starfsfólk á leikskólum verði þjálfað í slysahjálp eftir að sonur hennar gekk handleggsbrotinn um deildir skólans í tvær klukkustundir.

Atvikið átti sér stað í Hafnarfirði, 2. júlí síðastliðinn. Sonur Maríu Sveinsdóttur lék sér þá í íþróttasal ásamt öðrum krökkum og leiðbeinendum. Þegar María kemur að sækja piltinn tekur hún eftir að hann er með marblett á vinstri síðu sinni. María spurði starfsmenn leikskólans hvort að þeir vissu hvað hefði gerst. Þeim var ekki kunnugt um meiðslin.

„Ég fer þá með piltinn út í bíl," segir María. „Þegar ég ætla að festa bílbeltið á hann tek ég eftir að vinstri hönd hans er mjög aflaga. Ég ætlaði að koma við hendina á honum en strákurinn kveinkaði sér mjög við það."

María hljóp þá aftur inn á leikskólann og spurði á ný hvort að starfsfólkið hefði vitað til þess að drengurinn var slasaður.

„Þá fékk ég óljós svör. Við brunuðum því upp á slysadeild, þar kom í ljós að sonur minn var brotinn á báðum pípum fyrir neðan olnboga, þetta voru afar ljót brot." Drengurinn þurfti síðar að gangast undir aðgerð vegna brotanna.

Seinna meir kom í ljós að starfsfólk skólans hafði ekki upplýst stjórnendur um áhyggjur Maríu. Enn fremur er talið að pilturinn hafi verið handleggsbrotinn í allt að tvo klukkutíma áður en María kom að ná í hann.

„Ég veit vel að slys geta átt sér stað," segir María. „Það sem ég er ósátt með er að enginn tók eftir þessu. Það þarf að vera algert skilyrði að starfsfólk leikskóla búi yfir kunnáttu til að koma auga á svona."

María segir að bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hafi tekið málið til skoðunar. Þá fagnar hún því að málið skuli fá athygli og segir að mikill vilji sé fyrir því hjá yfirvöldum að tryggja það að slíkt gerist ekki aftur.

María var gestur í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×