Viðskipti innlent

Spá: Fjöldi ferðamanna á við nær þrefalda íbúatöluna árið 2015

Greining Arion banka spáir því að erlendum ferðamönnum muni fjölga um þriðjung á næstu tveimur árum og að þeir verði hátt í 900.000 talsins árið 2015 eða nær þreföld íbúatala landsins.

Fjallað er um málið í Markaðspunktum greiningarinnar. Þar segir að spá þeirra gerir ráð fyrir að ferðamönnum fjölgi í 855 þúsund á árinu 2015. Gangi spáin eftir þýðir það að ferðamenn verða um þriðjungi fleiri á því ári en á síðasta ári.

Hvað fjárhagslegan ávinning þjóðarbúsins af þessum aukna ferðamannafjölda varðar segir greiningin að búast megi við að meðalútgjöld hvers ferðamanns hafi verið um 250 þúsund krónur á síðasta ári.

Ef raunvirði meðalútgjalda hvers ferðamanns fari ekki minnkandi og spá greiningarinnar gangi eftir gætu tekjur ferðaþjónustunnar í heild vegna fjölgunar ferðamanna aukist um allt að samtals 112 milljörðum kr. á næstu þremur árum m.v. verðlag ársins í fyrra.

Greiningin tekur fram að hér sé um nokkuð gróflega áætlun að ræða. Hugsanlega sé um vanmat að ræða ef ferðamönnum fjölgar áfram yfir vetrartímann eins og gerst hefur að undanförnu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×