Viðskipti innlent

Spá því að verðbólgan lækki í 5,4%

Greining Íslandsbanka spáir því að ársverðbólgan lækki úr 5,7% og í 5,4% í október. Gangi spáin eftir yrði það í fyrsta sinn sem verðbólgan á landinu lækkar milli mánaða frá því í janúar á þessu ári.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar.  Þar segir að eftir talsverða hækkun verðlags síðustu mánuði vegna veikingar krónu á fyrri helmingi ársins, ríflegrar hækkunar launa á vordögum og aukins lífs á íbúðamarkaði virðist nú vera að draga úr hækkunartaktinum.

Styrking krónunnar um 2,5% frá miðju ári og veruleg lækkun hrávöruverðs kemur nú fram í litlum innfluttum kostnaðarþrýstingi, áhrif launahækkunar í júní eru að fjara út og íbúðaverð hækkar hægar en raunin var framan af ári. Slakinn í hagkerfinu takmarkar auk þess svigrúm seljanda vöru og þjónustu til að auka álagningar sínar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×