Skoðun

Spillingin í Hæstarétti og stjórnarskráin

Gísli Tryggvason skrifar
Blaðamaður Fréttablaðsins sneiðir að mér í þættinum Frá Degi til dags í gær –undir nafni þó. Verra er að blaðamaðurinn, Stígur Helgason, blandar embættisheiti mínu í málið.

Blaðamaðurinn finnur að orðum mínum um að ógilding Hæstaréttar á stjórnlagaþingskosningunum hefði verið „hluti af spillingunni.“ Þetta séu stór orð frá löglærðum manni sem vilji láta kjósa sig á þing.

„Kannski hann ætti að skýra betur hvað hann hefur fyrir sér þegar hann segir svona. Ef það er þá nokkuð.“

Í tilefni lokaorðanna þigg ég auðvitað boð Fréttablaðsins um að skýra málið betur en ég gat á þeim mínútum sem mér buðust í Silfri Egils.

Ógilding stjórnlagaþingskosninganna er einsdæmi enda var þar á einu stigi tekin ákvörðun án möguleika á endurskoðun. Ákvörðun um gildi kosninga til sveitarstjórnar fær t.a.m. meðferð á fjórum stigum. Hæstiréttur braut með ákvörðun sinni gegn tveimur skýrum hæstaréttardómafordæmum um hvað þurfi til svo að kosning sé ógilt vegna formgalla; frá 1982 um að misferli þurfi til og frá 1994 um orsakatengsl.

Nú er rekið fyrir dómi mál gegn fyrrverandi stjórnlagaráðsfulltrúa um þann orðróm að hæstaréttardómari hafi sjálfur samið kæruna í stjórnlagaþingsmálinu. Þar sem Hæstiréttur neitaði að rökstyðja synjun endurupptöku verður ákvörðun hans helst skýrð með annarri spillingu – skipun í Hæstarétt og spilltum ofurkjörum hæstaréttardómara.

Lengst af frá stofnun Hæstaréttar 1920 hefur sami stjórnmálaflokkurinn ákveðið skipun hæstaréttardómara – oft nátengda flokknum – sem flestir hafa komið úr æðstu lögum þjóðfélagsins, gjarnan úr sama menntaskólanum. Einstaka framsóknarmenn og kratar hafa fengið að fljóta með, varla vinstrimenn, sjaldan landsbyggðarfólk en nýverið konur.

Þessi hópur, sem til skamms tíma var aðalumsagnaraðili um nýja hæstaréttardómara, hefur í áratugi með fáum undantekningum, skammtað sér full laun til æviloka með því að biðja ráðherra dómsmála um 65 ára afmælisgjöf: brottrekstur; þá þjóðargjöf hafa ráðherrar gefið.

Nýja stjórnarskráin tekur á þessu öllu; valdastéttin er vanhæf til að semja eigin starfslýsingu.




Skoðun

Sjá meira


×